Því er ljóst að Messi spilar á sínu fimmta, og að öllum líkindum síðasta, heimsmeistaramóti í Katar í lok næsta árs. Þar fær Messi tækifæri til að vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil.
Brasilía var þegar komin á HM og Argentína er einnig komin með farseðilinn til Katar. Tvö sæti eru enn í boði í Suður-Ameríkuriðlinum og þá fer liðið í 5. sæti hans í umspil gegn liði frá Eyjaálfu.
Argentína er í 2. sæti riðilsins með 29 stig, sex stigum á eftir Brasilíu. Bæði lið eru enn ósigruð í undankeppninni.
Ekvador fór langt með að tryggja sér sæti á HM með 0-2 sigri á Síle á útivelli. Ekvadorar eru í 3. sæti riðilsins.
Vandræði Úrúgvæ halda hins vegar áfram en í gær tapaði liðið sínum fjórða leik í undankeppninni í röð, 3-0 gegn Bólivíu. Úrúgvæar eru í 7. sæti riðilsins með sextán stig, jafn mörg og Sílemenn sem eru í því sjötta.
Perú lyfti sér upp í 5. sætið með 1-2 sigri á Venesúela og Kólumbía og Paragvæ gerðu markalaust jafntefli.
Tólf lið eru búin að tryggja sér sæti á HM 2022 auk heimaliðs Katar: Þýskaland, Danmörk, Brasilía, Frakkland, Belgía, Króatía, Spánn, Serbía, England, Sviss, Holland og Argentína.