Erlent

Halda þjóðar­at­kvæða­greiðslu um þátt­töku Dana í varnar­sam­starfi ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á fréttamannafundinum í gær.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á fréttamannafundinum í gær. AP

Dönsk stjórnvöld munu auka framlög sín til varnarmála á næstu árum á þann veg að árið 2033 munu tvö prósent af vergri landsframleiðslu renna til málaflokksins. Þá stendur til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar um þátttöku Danmerkur í varnarsamstarfi Evrópusambandsins.

Frá þessu greindi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á fréttamannafundi í gær. Stefnubreytinguna má rekja sérstaklega til atburðanna í Austur-Evrópu og innrásar Rússa inn í Úkraínu.

Frederiksen sagði að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin 1. júní næstkomandi, en Danmörk er sem stendur eina aðildarríki sambandsins sem ekki tekur þátt í varnarsamstarfinu.

Núverandi fyrirkomulag felur í sér að Danir taka ekki þátt í þeim hluta sameiginlegu utanríkis- og öryggistefnu sambandsins sem snýr að varnarmálum. Þannig taka Danir ekki þátt í sameiginlegum hernaðarverkefnum ESB og fjármögnun þeirra. Sömuleiðis taka Danir heldur ekki þátt í sendingum hergagna á vegum sambandsins.

„Danmörk heyrir til hjarta Evrópu, án nokkurra fyrirvara,“ sagði Frederiksen á fréttamannafundi í gær.

Frederiksen sagði framlögin til varnarmála myndu hækka þegar í stað, en þau nema nú 1,47 prósent af vergri landsframleiðslu, um 36,3 milljarðar danskra króna á ári. Framlögin skulu svo hækka jafnt og þétt þar sem að þau hafi náð tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu árið 2033.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×