Fótbolti

FIFA opnar sér­stakan fé­laga­skipta­glugga fyrir leik­menn í Rúss­landi og Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon er leikmaður CSKA Moskvu.
Hörður Björgvin Magnússon er leikmaður CSKA Moskvu. Sergei Bobylev/Getty Images

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu mun Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, opna sérstakan félagaskiptaglugga fyrir leikmenn sem spila í Rússlandi og Úkraínu. Það sama verður gert fyrir þjálfara og aðra sem starfa hjá félögunum. 

FIFA birti yfirlýsingu þess efnis fyrr í kvöld. Vegna aðstæðna í Úkraínu hefur sambandið ákveðið að opna sérstakan félagaskiptaglugga fyrir leikmenn og starfslið félaga í landinu. 

Allir erlendir leikmenn sem og erlent starfslið í Úkraínu mun geta samið við önnur félög þangað til yfirstandandi vetrartímabil er lokið þann 30. júní næstkomandi. Það sama á við um erlenda leikmenn og erlent starfslið í Rússlandi.

Þýðir þetta að leikmennirnir og starfsliðið sem um er ræðir verða í raun samningslausir þangað til 30. júní en geta þó spilað fyrir hvaða félag sem er fram að því. Glugginn verður opinn til og með 7. apríl næstkomandi. 

Í frétt New York Times segir að leikmannasamtök hafi viljað gefa leikmönnum valmöguleikann á því að rifta samningum sínum alfarið en ekki aðeins tímabundið. FIFA, UEFA og ECA voru víst ekki á þeim buxunum.

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er á mála hjá rússneska félaginu CSKA Moskvu. Þá er Arnór Sigurðsson einnig leikmaður félagsins en hann er á láni hjá Venezia á Ítalíu sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×