Handbolti

Óðinn Þór var viss um að Arnar Freyr myndi klára dæmið

Hjörvar Ólafsson skrifar
Óðinn Þór í leiknum í kvöld.
Óðinn Þór í leiknum í kvöld. Hulda Margrét

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði mörk í öllum regnbogans litum þegar KA tryggði sér sæti í bikarúrslitum í handbolta karla eftir 18 ára bið með dramatískum sigri gegn Selfossi í kvöld.

„Þetta var ótrúlegur leikur og örugglega gott sjónvarp. Ég skal alveg viðurkenna það að ég hélt að við myndum vinna þægilegan sigur þegar við vorum komnir fimm mörkum yfir og lítið eftir.

Mér fannst líklegra að við myndum auka forskotið á þeim tímapunkti en vel gert hjá Selfossi að koma sér inn í leikinn,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson sem skoraði 12 mörk fyrir KA þegar liðið vann Selfoss eftir framlengdan leik í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í handbolta karla í kvöld.

„Ég fann mig vel í þessum leik og ég var líka að fá góða þjónustu, með sendingum í hornið og upp í hraðaupphlaup. Þá vorum við duglegir í að sækja okkur víti. Það er frábær tilfinning að hafa náð að klára þetta og komast í úrslit,“ sagði Óðinn Þór enn fremur.

Óðinn Þór hafði tröllatrú á kollega sínum í vinstra horninu þegar hann sveif inn úr vinstra horninu á lokasekúndu framlengingarinnar. „Ég var alveg viss um að Arnar Freyr myndi klára dæmið. Hann hefur gert það áður á ögurstundu á móti Selfossi. Þetta var aldrei spurning,“ sagði hornamaðurinn um lokaskot leiksins.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að mæta Val á laugardaginn. Þeir eru á miklu skriði og eru með frábært lið. Þetta verður erfitt verkefni. Þeir hafa verið með okkur í vasanum í vetur en stefnan er að breyta því um helgina,“ sagði Óðinn Þór spenntur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×