Fótbolti

Alsír í góðum málum | Mar­traðar­leikur hjá Sissoko gegn Túnis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Islam Slimani skoraði sigurmark Alsír í leiknum.
Islam Slimani skoraði sigurmark Alsír í leiknum. Twitter/@CAF_Online

Umspil um sæti á HM karla í knattspyrnu sem fram fer í Katar síðar á þessu ári er komið á fleygiferð. Þrír af fimm leikjum í umspili knattspyrnusambands Afríku er nú lokið. Alsír og Túnis unnu nauma sigra á meðan Kongó og Marokkó gerðu jafntefli.

Islam Slimani skoraði sigurmarkið í leik Kamerún og Alsír. Síðarnefnda þjóðin því með nauma 1-0 forystu fyrir síðari leik liðanna en sigurvegarinn úr hverri rimmu fyrir sig fer á HM í Katar.

Moussa Sissoko, varnarmaður St. Liege í Belgíu, átti sannkallaðan martraðarleik er Malí og Túnis mættust. Hann skoraði sjálfsmark á 36. mínútu leiksins – sem reyndist sigurmark leiksins – og lét svo reka sig af velli fjórum mínútum síðar. Túnis því með 1-0 forystu fyrir síðari leik liðanna.

Það var næg dramatík í leik Kongó og Marokkó en gestirnir brenndu af vítaspyrnu í stöðunni 1-0 en tókst þó á endanum að jafna metin. Heimamenn fengu svo rautt spjald undir lok leiks en gestunum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og því allt opið eftir leik kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×