Fótbolti

Am­ne­­sty segir verka­mann í Katar vera í nauðungar­vinnu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ljóst er að mörg munu sniðganga Katar vegna stöðu mála þar í landi.
Ljóst er að mörg munu sniðganga Katar vegna stöðu mála þar í landi. Harry Langer/Getty Images

Enn og aftur berast hryllilegar sögur af aðbúnaði verkafólks í Katar. HM karla í í knattspyrnu verður haldið þar undir lok árs.

Íþróttamiðillinn The Athletic greinir frá. Vitnar miðillinn í 74 blaðsíðna skýrslu Amnesty International, mannréttindasamtakanna. Þar segir að aðstæður verkamanna - þá sérstaklega farandverkamanna sem eru eingöngu í Katar til að aðstoða við uppbyggingu fyrir HM - séu líkar aðstæðum fólks sem sé í nauðungarvinnu.

Amnesty sem og önnur mannréttindasamtök hafa reglulega vakið athygli á stöðu verkafólks í Katar. FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur fengið mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun að halda HM 2022 í landinu. Ein ástæðan er sú að stærstu deildir Evrópu þurfa að breyta fyrirkomulaginu sínu og margar hverjar þurfa að fara í enn lengra jólafrí en áður.

Aðalástæðan er þó að landið var engan veginn í stakk búið til að halda mótið. Leikvangar voru ekki tilbúnir og borgir þar sem leikir áttu að fara fram voru ekki til þegar ákveðið var að halda HM 2022 í Katar. 

Því hefur gríðarlegt magn farandverkafólks verið sótt hingað og þangað til að gera allt klárt. Umrætt verkafólk hefur unnið myrkranna milli til að hægt verði að halda mótið. Í skýrslu Amnesty kemur fram að sumt verkafólk hafi þurft að vinna 12 tíma vinnudag, sjö daga vikunnar, í fleiri mánuði og jafnvel ár.

Að venju hefur FIFA svarað og sagt að rannsókn sé í gangi. Einnig segist sambandið vera á móti mannréttindabrotum. Þrátt fyrir það virðist sem mannréttindi fólks hafi verið brotin aftur og aftur í Katar.

HM hefst þann 21. nóvember þegar Senegal og Holland mætast. Síðar um daginn mætast Katar og Ekvador. Úrslitaleikurinn sjálfur fer svo fram 18. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×