Innlent

Kristín nýr skóla­stjóri Egils­staða­skóla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristín Guðlaug var síðast aðstoðarskólastjóri í Sunnulækjarskóla á Selfossi.
Kristín Guðlaug var síðast aðstoðarskólastjóri í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Facebook

Kristín Guðlaug Magnúsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Egilsstaðaskóla. Hún tekur við starfinu af Ruth Magnúsdóttur. Sex sóttu um starfið sem auglýst var til umsóknar þann 25. mars.

Á vef Múlaþings segir að Kristín hafi í rúm 30 ár starfað innan veggja grunnskóla, bæði sem kennari og stjórnandi. Frá árinu 2013 hefur Kristín verið aðstoðarskólastjóri Sunnulækjarskóla í Árborg en áður hafði hún verið deildarstjóri þar um fimm ára skeið.

Kristín er ekki ókunn Egilsstaðaskóla en hún starfaði þar sem umsjónarkennari og árgangastjóri á mið-og unglingastigi í nokkur ár. Kristín starfaði einnig í nokkur ár í Hallormstaðaskóla.

Kristín tekur við starfinu af Ruth Magnúsdóttur sem starfað hefur í skólanum frá 2001 og sem skólastjóri Egilsstaðaskóla frá árinu 2016 en hún lætur af störfum í sumar.

„Um leið og við bjóðum Kristínu velkomna til starfa þökkum við Ruth sérstaklega fyrir gott og farsælt samstarf og óskum henni velfarnaðar í nýjum verkefnum,“ segir á vef Múlaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×