Fótbolti

Hólmbert og félagar halda toppsætinu | Alfons lék allan leikinn í tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson í leik með íslenska landsliðinu.
Hólmbert Aron Friðjónsson í leik með íslenska landsliðinu. vísir/Getty

Það voru Íslendingar í eldlínunni í tveimur af fjórum leikjum í norska fótboltanum í dag. Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar hans í Lillestrøm eru enn á toppi deildarinnar efitr 2-2 jafntefli gegn Tromsø, en Alfons Sampsted og norsku meistararnir í Bodø/Glimt þurftu að sætta sig við 3-1 tap gegn Molde.

Hólmbert var í byrjunarliði Lillestrøm er liðið heimsótti Tromsø. Heimamenn í Tromsø tóku forystuna stuttu áður en flautað var til hálfleiks, en Hólmbert og félagar jöfnuðu eftir um klukkutíma leik.

Hólmbert var svo tekinn af velli á 61. mínútu áður en liðið tók forystuna rúmum tíu mínútum síðar, en heimamenn jöfnuðu metin á þriðju mínútu uppbótartíma og niðurstaðan því 2-2 jafntefli. 

Lillestrøm trónir enn á toppi norsku deildarinnar með 24 stig eftir tíu leiki, 13 stigum meira en Tromsø sem situr í tíunda sæti.

Þá var Alfons Sampsted á sínum stað í byrjunarliði Bodø/Glimt er liðið heimsótti Molde. Norsku meistararnir hafa ekki farið jafn vel af stað og vonast var eftir og liðið er aðeins með 13 stig eftir 3-1 tap gegn Molde í dag. 

Alfons og félagar eru níu stigum á eftir Molde sem lyfti sér upp í annað sæti deildarinnar með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×