Innlent

Fimm mánuðir fyrir hálfrar milljónar dósasvindl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt fyrrverandi starfsmann Endurvinnslunnar á Akureyri í fimm mánaða fangelsi fyrir fjársvik.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa, í júní og júlí á síðasta ári, falsað móttökuseðla fyrir drykkjarumbúðir. Maðurinn var þá starfsmaður Endurvinnslunnar á Akureyri.

Var honum gefið að sök að hafa farið með hina fölsuðu móttökuseðla í greiðsluvél fyrir viðskiptavini og fengið fjármuni millifærða inn á eigin reikning.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra má sjá að maðurinn tók út lágar upphæðir í hvert skipti, minnst 832 krónur en mest 13.014 krónur, stundum nokkrum sinnum á dag yfir tæplega tveggja mánaða tímabil.

Alls hafði maðurinn 502.216 krónur upp á krafsinu sem samsvarar skilagjaldi fyrir tæplega 28 þúsund flöskur sé miðað við núverandi skilagjald sem er 18 krónur, en var 16 krónur fyrir 1. júlí á síðasta ári.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn á að baki nokkurn sakaferil og að um væri að ræða fimmtu ítrekun auðgunarbrots mannsins.

Leit dómurinn einnig til þess að fyrir lægi vottorð um góða hegðun mannsins á Kvíabryggju. Var maðurinn því dæmdur í fimm mánaða fangelsi vegna málsins.


Tengdar fréttir

Dæmdir fyrir milljóna dósasvindl í Eyjum

Tveir karlmenn í Vestmannaeyjum hafa verið dæmdir í þrjátíu og 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa dregið sér rúmlega tvær milljónir króna sem starfsmenn Endurvinnslunnar í Heimaey. Mennirnir útbjuggu kvittanir fyrir móttöku drykkjarumbúða, án þess að skila slíkum umbúðum, og hirtu skilagjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×