Alls hafa um 500 þúsund miðar verið seldir á mótið. Það er rúmlega tvöfalt meira en seldist af miðum á EM í Hollandi árið 2017, en þá mættu rétt rúmlega 240 þúsund áhorfendur á völlinn. Um 700 þúsund miðar voru settir í sölu fyrir mótið og því er enn svigrúm til að bæta vel í áhorfendatölur.
Skipuleggjendur mótsins ákváðu að halda miðaverði lágu til að laða sem flesta að mótinu, sérstaklega fjölskyldufólk. Miðaverð er frá fimm til fimmtíu pund og fjögurra manna fjölskylda getur mætt á völlinn fyrir svo lítið sem þrjátíu pund, eða tæpar fimm þúsund krónur.
🎟️ Nadine Kessler on #WEURO2022 ticket sales: "We're at 517,000 tickets now a day before the opening. Who would have thought that for a women's tournament? That's simply fantastic and shows how high our expectation is." pic.twitter.com/4CLjpddAVE
— UEFA (@UEFA) July 5, 2022
Eins og áður segir fer opnunarleikur mótsins fram í kvöld þegar England og Austurríki eigast við á Old Trafford fyrir framan rúmlega 70 þúsund áhorfendur. Það verður fyrsti leikurinn af 31 sem spilaður verður á mótinu, en 16 lið munu berjast um Evrópumeistaratitilinn á „stærsta íþróttaviðburði kvenna í sögunni í Evrópu“ eins og Nadine Kessler, yfirmaður kvennafótboltans hjá UEFA orðar það.
„Við getum ekki beðið eftir að boltinn byrji að rúlla,“ sagði Kessler, en þessir 500 þúsund miðar sem nú þegar hafa verið keyptir, hafa verið keyptir í 99 löndum.
„Hverjum hefði dottið það í hug á Evrópumóti kvenna? Þetta er algjörlega frábært og sýnir hversu háar væntingar við höfum og hvað það er sem við viljum ná fram.“