Að sögn lögreglu fundust lík hinna 42 ára gömlu Sarah og Tyler Schmidt og dótturinnar Lulu í tjaldi þeirra á föstudag. Níu ára sonur hjónanna sem var með í för lifði árásina af. 23 ára gamall karlmaður er grunaður um verknaðinn. Lögregla fann lík hans í sama þjóðgarði en talið er að sá hafi tekið eigið líf eftir að hann banaði fjölskyldunni.
Fram kemur í frétt BBC að rannsókn málsins standi enn yfir. Mitch Mortvedt, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Iowa, sagði í samtali við staðarmiðil að engar tilkynningar hafi borist um átök milli fórnarlambanna og grunaða árásarmannsins áður en hann lét til skarar skríða. Sá hefur verið nafngreindur sem Anthony Orlando Sherwin og er sagður hafa gist á sama tjaldstæði og fjölskyldan.
Safna peningum fyrir drenginn
Lík fórnarlambanna fannst á föstudagsmorgun og voru viðbragðaðilar kallaðir á staðinn klukkan 06:23 að staðartíma. Þjóðgarðurinn var rýmdur í kjölfarið en þá var talið að hætta gæti enn stafað af honum. Eftir leit úr lofti fannst lík hans í nokkurri fjarlægð frá tjaldstæðinu.
Fjármunum er nú safnað á söfnunarsíðunni GoFundMe til að hjálpa níu ára syni hjónanna sem lifði árásina af. Hátt í 150 þúsund Bandaríkjadalir höfðu safnast síðdegis í gær sem samsvarar um tuttugu milljónum íslenskra króna.