Fram kemur í frétt á heimasíðu Barcelona að Kounde muni innan tíðar gangast undir læknisskoðun hjá félaginu og svo virðist á samfélagsmiðlum að samið hafi verið um kaup og kjör.
Þar má sjá þennan 23 ára gamla varnarmann í fatnaði merktum Barcelona að lýsa yfir hrifningu sinni á Katalóníufélaginu.
Fátt virðist því benda til annars en að Kounde muni leika með Barcelona á komandi keppnistímabili en félagið hafði betur í baráttu við Chelsea um að klófesta kappann.
@jkeey4 pic.twitter.com/6wuQbDzppo
— FC Barcelona (@FCBarcelona) July 28, 2022
Kounde verður fimmti leikmaðurinn sem Barcelona fær til liðs við sig í félagaskiptaglugganum í sumar en áður höfðu Robert Lewandowski, Raphinha, Andreas Christensen og Franck Kessie bæst við leikmannahóp Xavi.
Mörgum í knattspyrnuheiminum finnst skjóta skökku við að Barcelona geti bætt þessum leikmönnum við sig á meðan félagið skuldar öðrum leikmönnum liðsins launagreiðslur.