„Ég er fyrst og fremst afar hreykinn af spilamennsku minna manna hér í kvöld. Leikmenn mínir gáfu allt og rúmlega það í þetta verkefni og skildu allt eftir á vellinum. Ég er brjálaður að hafa ekki unnið eða gert minnst jafntefli á sama tíma og ég er ótrúlega stoltur.
Við héldum þeim í skefjum í fyrri hálfleik og fengum færi til þess að komast yfir. Við héldum boltanum vel, þorðum að spila á milli línanna og ég er sáttur við það," sagði Óskar Hrafn eftir leikinn.
„Það voru svo einstaklingsgæði hjá leikmönnum þeirra sem urðu til þess að við lentum undir. Þegar þú spilar við jafn sterkt lið og við gerðum í kvöld þá losnar alltaf um þá á einhverjum kafla í leiknum. Þeir náðu upp góðu spili og sköpuðu nokkur færi í upphafi seinni hálfleiks og nýttu þau vel," sagði þjálfari Breiðabliks enn fremur.
„Við náðum hins vegar upp góðri pressu upp úr miðjum seinni hálfleik og uppskárum mark. Við herjuðum á þá fyrir og eftir markið og það má í raun segja að við höfum fallið á eigið sverð í þessum leik. Við freistuðum þess að jafna metin og fenugm mark í andlitið í lokin," sagði hann.
„Þegar upp er staðið náðum við að velgja tyrkneksu stórliði undir uggum og við hefðum mögulega átt að fá víti í stöðunni 2-1. Ef við hefðum náð að nýta einhverjar af þeim stöðum sem við fengum og færi betur þá hefði leikurinn mögulega þróast öðruvísi.
Þegar þú mætir jafn sterkum andstæðingi og við gerðum að þessu sinni þarf allt að ganga upp. Sendingar þurfa að vera hárnákvæmar, hlaupin að sinka við þau á hárréttum tíma og hlutirnir þurfa að falla fyrir þig," sagði Óskar Hrafn um leikinn.