Enski boltinn

Ryan Giggs sagður vera með ljóta og illkvittna hlið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það vantaði ekki myndavélar og fjölmiðlamenn þegar Ryan Giggs mætti í Manchester Minshull Street Crown réttarsalinn.
Það vantaði ekki myndavélar og fjölmiðlamenn þegar Ryan Giggs mætti í Manchester Minshull Street Crown réttarsalinn. AP/Danny Lawson

Mál gegn Ryan Giggs, einum dáðasta leikmanni í sögu Manchester United, hófst í gær í Manchester Minshull Street Crown dómstólnum og var þessi fyrrum leikmaður og landsliðsþjálfari Wales mættur til að heyra framsögu saksóknara.

Breska ríkisútvarpið hefur sagt frá því sem kom fram í réttinum en þar var Giggs sagður vera með ljóta og illkvittna hlið og að hann væri allt annar maður en menn þekkja til hans frá fótboltaferlinum.

Hinn 48 ára gamli Giggs er ákærður fyrir að beita fyrrum kærustu sína líkamlegu og andlegu ofbeldi sem og að ráðast á yngri systur hennar.

Saksóknarinn Peter Wright sagði frá því að samband Giggs við Kate Greville hafi einkennst af ofbeldi og óvissu. Hann sagði að í einkalífinu hafi Giggs stundað valdbeitingu bæði líkamlega og andlega.

Wright sagði að þetta væri saga um nauðungarstjórn og þvinganir gegn konu sem hélt að hún væri elskuð og virt.

Þegar Kate vildi enda sambandið þá hafi það kallað á ofbeldi þar sem Giggs hafi skallað hana í andlitið og gefið síðan systur hennar olnbogaskot í kjálkann.

Hann sagði að fröken Greville hafi komist að því að Giggs hefði einu sinni sem oftar haldið fram hjá henni og hún hafi sagt systur sinni frá því að hún ætlaði að enda samband þeirra. Giggs missti algjörlega stjórn á sér við þessar fréttir.

Emma Greville fékk olnbogaskotið frá Giggs þegar hún reyndi að toga hann af systur sinni. Við þetta missti Giggs algjörlega stjórn á sér, skallaði Kate í andlitið. Emma hringdi þá í lögregluna sem handtók Ryan.

Giggs var sagður sýna henni elskulegheit og sára iðrun á milli þess að hann beitti hana ofbeldi. Hann hélt því líka fram að hún hafi misskilið hann og að hann væri í raun fórnarlambið. Giggs heldur fram sakleysi í málinu.

Bæði Sir Alex Ferguson og fyrrum liðfélagi Giggs, Gary Neville, verða kallaðir til sem vitni í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×