Fótbolti

Berglind hjá PSG næstu tvö árin

Sindri Sverrisson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir með PSG-treyjuna og staðfestingu á því að samningur hennar gildir til ársins 2024.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir með PSG-treyjuna og staðfestingu á því að samningur hennar gildir til ársins 2024. PSG.fr

Nú í morgun, sólarhring eftir að norska félagið Brann greindi frá sölunni, tilkynnti franska félagið PSG að það hefði fest kaup á landsliðsframherjanum Berglindi Björg Þorvaldsdóttur frá Brann.

Eyjakonan skrifaði undir samning við franska stórliðið sem gildir til 30. júní 2024. 

Mögulega verður Berglind því í leikmannahópi PSG strax á sunnudaginn þegar liðið mætir Lyon í árlegum meistaraleik í Frakklandi. Þessi tvö lið hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í Frakklandi síðustu ár en Lyon oftar haft yfirhöndina. PSG varð þó franskur meistari 2021 en Lyon endurheimti titilinn í vor.

Fyrsti deildarleikur Berglindar gæti orðið gegn Soyaux í París 9. september, þegar hún snýr aftur til borgarinnar eftir landsleikina með Íslandi gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi í undankeppni HM.

PSG keypti Berglindi frá Brann og segir sérfræðingurinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Vals, ljóst að henni sé ætlað hlutverk í franska stórliðin.

Berglind kom til Brann frá Hammarby í janúar og skrifaði undir samning sem gilda átti út árið 2023. Hún snýr nú aftur til Frakklands eftir að hafa spilað þar með Le Havre tímabilið 2020-21. Hun hefur einnig leikið á Ítalíu og í Hollandi sem atvinnumaður, en með Breiðabliki, Fylki og ÍBV hér á landi auk þess að spila með Florida State háskólanum í Bandaríkjunum.

Berglind er þrítug og á að baki 66 A-landsleiki, og hefur skorað í þeim tólf mörk, það tólfta á Evrópumótinu í Englandi í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×