Fótbolti

Koundé skráður í leik­manna­hóp Börsunga sem mæta með full­mannað lið um helgina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jules Koundé fær loks að spila með Barcelona.
Jules Koundé fær loks að spila með Barcelona. EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Spænska knattspyrnuliðið Barcelona hefur loksins fengið leyfi til að skrá Jules Koundé í leikmannahóp sinn en félagið festi kaup á honum í sumar. Franski varnarmaðurinn verður því að öllum líkindum í leikmannahópi liðsins er það fær Valladolid í heimsókn í þriðju umferð spænsku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.

Hinn 23 ára gamli Koundé var síðasti leikmaðurinn sem Barcelona keypti í sumar eftir að hafa fest kaup á Raphinha, Robert Lewandowski, Andreas Christensen og Franck Kessié. Tveir síðastnefndu komu á frjálsri sölu á meðan Koundé, Raphinha og Lewandowski kostuðu samtals 129 milljónir punda. 

Hinir fjórir höfðu allir verið skráðir í leikmannahóp félagsins en talið var að ef ekki væri hægt að skrá Koundé áður en félagaskiptaglugginn lokaði þá mætti hann rifta samningi sínum við félagið. 

Mikið hefur verið fjallað um fjárhag Barcelona undanfarnar vikur og mánuði. Talið vær nær öruggt að liðið þyrfti að selja leikmenn á borð við Frenkie de Jong til að geta skráð Koundé til leiks. Það virðist sem það hafi dugað að senda Samuel Umtiti á láni til Lecce.

Koundé fer í treyju númer 23 en téður Umtiti var í henni áður. Börsungar vonast til að Koundé gangi betur á Nývangi en samlanda sínum Umtiti. Sá fann sig aldrei í treyju Barcelona og mun nú hjálpa Þóri Jóhanni Helgasyni og félögum að halda sæti sínu í ítölsku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir

Barcelona gerir allt til að neyða Braithwaite á brott

Spænska félaginu Barcelona gengur misvel að losa sig við leikmenn til að rýma til fyrir þeim sem hafa samið við félagið í sumar. Daninn Martin Braithwaite er sérlega óvinsæll hjá stjórnendum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×