Garnacho skoraði eina mark leiksins þegar United sigraði Real Sociedad á Spáni í lokaumferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í gær. Markið kom á 17. mínútu en Ronaldo lagði það upp fyrir hinn átján ára Garnacho.
Argentínumaðurinn fagnaði eins og Ronaldo gerði þegar hann skoraði gegn Sheriff Tiraspol. Garnacho passaði sig þó á því að spyrja Ronaldo fyrst um leyfi. Ekki nóg með það heldur þakkaði hann Ronaldo fyrir á samfélagsmiðlum eftir leikinn.
18 years and 125 days dreaming of this moment
— Alejandro Garnacho (@agarnacho7) November 3, 2022
Thanks Idol, @Cristiano pic.twitter.com/p3znaynaH3
Garnacho fæddist 1. júlí 2004. Daginn áður hafði Ronaldo skorað fyrra mark Portúgals í 2-1 sigri á Hollandi í undanúrslitum EM. Þann 4. júlí spilaði Ronaldo svo úrslitaleik EM þar sem Portúgalir töpuðu óvænt fyrir Grikkjum, 1-0.
Garnacho hefur byrjað síðustu tvo leiki United í Evrópudeildinni og verið valinn maður leiksins í bæði skiptin. Þrátt fyrir að vinna fimm af sex leikjum sínum endaði United í 2. sæti E-riðils. Real Sociedad var fyrir ofan United á hagstæðari markatölu.
United þarf því að fara í umspil um sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Dregið verður í það á mánudaginn.