Fótbolti

Hitaði upp fyrir HM með því að reka tíu leikmenn af velli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Facunda Tello var eflaust kominn með verk í höndina að lyfta rauða spjaldinu í tíma og ótíma.
Facunda Tello var eflaust kominn með verk í höndina að lyfta rauða spjaldinu í tíma og ótíma.

Dómari leiks Boca Juniors og Racing í meistarakeppninni í argentínska fótboltanum um helgina hafði í nógu að snúast og rak hvorki fleiri né færri en tíu leikmenn af velli.

Í uppbótartíma, þegar staðan var 1-1, brutust út slagsmál milli Sebastían Villa, leikmanns Boca, og Racing-mannsins Johan Carbonero. Facunda Tello, dómari leiksins, rak þá báða út af. En það var bara lognið á undan storminum.

Í framlengingunni kom Carlos Alcaraz Racin yfir með skallamarki. Hann fagnaði af mikilli innlifun og fagnið snerti viðkvæma taug hjá leikmönnum Boca. Þeir hópuðust að honum, ýttu honum, toguðu í eyrað á honum og köstuðu bolta í hann.

Eftir að menn höfðu róast byrjaði Tello að útdeila refsingum. Hann rak fimm leikmenn Boca af velli og einn leikmann Racing. Fyrr í framlenginunni hafði Alan Varela, leikmaður Boca, fengið rautt spjald og því hafði Tello alls rekið tíu leikmenn af velli. Auk þess gaf hann þrettán gul spjöld í leiknum sem Racing vann, 1-2.

Hinn fertugi Tello þykir einn fremsti dómari Suður-Ameríku og verður einn sex dómara frá heimsálfunni á HM í Katar sem hefst síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×