Séu tölurnar sem breska ríkisútvarpið BBC fékk frá félagasamtökunum Global Witness réttar eru fulltrúar olíu-, kola- og gasfyrirtækja fjölmennari en sendinefndar þeirra tíu ríkja sem verða fyrir mestum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga samanlagt.
Hagsmunaverðir iðnaðarins hafa alltaf sótt ráðstefnuna en í fyrra er áætlað að þeir hafi verið rétt um fimm hundruð talsins. Global Witness telur að þeir séu 636 í ár, þar á meðal um tvö hundruð í sendinefndum ríkja. Aðrir tilheyra hagsmunasamtökum, alþjóðastofnunum eða félagasamtökum.
Af sendinefndum einstakra ríkja eru hagsmunaverðirnir fjölmennastir í föruneyti Sameinuðu arabísku furstadæmisins eða sjötíu talsins. Í rússnesku sendinefndinni eru taldir 33 fulltrúar hagsmunaaðila í jarðefnaeldsneytisiðnaði.
„COP27 lítur út eins og kaupstefna jarðefnaeldsneytisiðnaðarins,“ hefur BBC eftir Rachel Rose Jackson frá samtökunum Corporate Accountabilty sem tók þátt í að birta tölurnar.
„Þeir eru drifnir áfram af hagnaði og græðgi. Þeim er ekki alvara með loftslagsaðgerðum. Þeim hefur aldrei verið það og verða það aldrei,“ segir hún.
Fjöldi hagsmunavarða iðnaðarins er þó aðeins dropi í hafið á ráðstefnunni. Áætlað er að um 35.000 manns sæki ráðstefnuna í ár.
Einn hagsmunavarðanna á ráðstefnunni er Omar Farouk Ibrahim, forstjóri Samtaka afrískra olíuframleiðsluríkja. Hann segist reyna að hafa áhrif á samningamenn á ráðstefnunni til að reyna að afla stuðnings við olíu- og gasvinnslu í Afríku og vísar til þess að um 600 milljónir manna hafi ekki aðgang að rafmagni í álfunni.
„Ef þú ert ekki við borðið þá verður þú á matseðlinum,“ segir Ibrahim.
Í aðdraganda ráðstefnunnar í ár hefur sú hugmynd að leggja sérstakan hvalrekaskatt á methagnað jarðefnaeldsneytisfyrirtækja átt auknum vinsældum að fagna. Slíkur skattur yrði notaður til þess að fjármagna aðstoð við þróunarríki vegna loftslagsvárinnar.