Þetta er meðal þess sem kemur fram í úrskurði Landsréttar um að sleppa öðrum mannanna úr gæsluvarðhaldi en úrskurðurinn var birtur á vef Landsréttar í dag og honum fylgir gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember, þegar gæsluvarðhald mannanna var lengt.
Mönnunum tveimur var sleppt fyrr í vikunni og byggði Landsréttur þá ákvörðun á geðmati um að mennirnir væru ekki hættulegir.
Sjá einnig: Hvorki taldir hættulegir sér né öðrum og sleppt úr haldi
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að lögreglan hafi leitað til sérfræðinga Europol í málefnum hryðjuverka og hryðjuverkasamtaka. Þeir voru fengnir til að fara yfir gögn málsins og mátu málið svo að mennirnir hafi verið við það að grípa til aðgerða og framkvæma hryðjuverk á Íslandi.
Með vopn og efni um hryðjuverkamenn og hryðjuverk
Hálfsjálfvirkir rifflar á borð við AK-47 og AR-15 voru gerðir upptækir, auk skotfæra og íhluta í þrívíddarprentaðar byssur þegar mennirnir voru handteknir í haust. Í dómsskjölum kemur fram að hald hafi verið lagt á hlut sem hægt væri að setja í AR-15 riffilinn og gera hann þannig sjálfvirkan. Þá fundu lögregluþjónar mikið magn skotfæra og hundrað skota magasín.
Þar kemur einnig fram að mennirnir höfðu í fórum sínum mikið magn efnis um þekkta hryðjuverkamenn, voðaverk þeirra, stefnur yfirlýsingar og verknaðar- og undirbúningsaðferðir þeirra.
Maðurinn sem úrskurðurinn fjallar um neitaði því að hafa undirbúið hryðjuverk og sagði ummæli þeirra um hin ýmsu voðaverk vera marklaus. Þau hefðu verið sett fram í gríni og undir áhrifum áfengis. Það sama ætti við um allt efnið sem þeir hefðu aflað sér.
Sjá einnig: Sagður hafa viljað lögreglubúning fyrir skotárás
Maðurinn er sagður hafa verið byrjaður að skrifa sitt eigið „manifesto“ eins og það er kallað á ensku en er nokkurs konar yfirlýsing sem birt er í tengslum við hryðjuverkaárás.