Surovikin hefur verið gerður að aðstoðarmanni Gerasimov, ásamt öðrum herforingjum, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins. Breytingarnar eru sagðar eiga að auka skilvirkni hinnar „sértæku hernaðaraðgerðar“, eins og Rússar kalla innrásina.
Áður en Surovikin tók við stjórn innrásarinnar í október var henni stjórnað af nokkrum mismunandi herforingjum. Úkraínumenn höfðu náð að frelsa umfangsmikil landsvæði í Úkraínu og átti Surovikin að snúa við taflinu.
Eitt hans fyrsta verk var að hörfa frá vesturbakka Dniproár og Kherson-borg og lögðu Rússar í kjölfarið meiri áherslu á að sækja fram í Donetsk-héraði. Það hefur þó skilað takmörkuðum árangri og Rússar hafa ekkert sótt fram svo máli skiptir, þó þeir séu sagðir hafa náð takmörkuðum árangri í bænum Soledar, norður af Bakhmut.
Gífurlega harðir bardagar hafa geisað á svæðinu og er mannfall sagt mikið hjá báðum fylkingum.
Vísbendingar um deilur
Málaliðahópurinn Wagner Group, sem er í eigu auðjöfursins Yevgeny Prigozin, náins bandamanns Valdimírs Pútíns, forseta Rússlands, hefur leitt sóknina að Bakhmut. Vísbendingar eru um ákveðnar deilur milli Prigozins og forsvarsmanna hersins, þeirra Shoigu og Gerasimovs.
Prigozin hefur haldið því fram að það hafi verið málaliðar hans sem hafi náð árangri í Soledar en ekki herinn og að hermenn hafi í rauninni ekki komið að árásum á bæinn, samkvæmt frétt BBC.
Á undanförnum mánuðum hefur auðjöfurinn verið mjög gagnrýninn á herinn og ítrekað gefið í skyn að Shoigu og Gerasimov ráði ekki við starfið. Herinn geti ekki náð árangri en það geti málaliðar hans.
Prigozhin hefur lengi verið kallaður „kokkur Pútíns“. Hann hefur aukið umsvif sín í rússneskri pólitík í kjölfar innrásar Rússa Í Úkraínu og eru uppi vangaveltur um að hann vilji stilla sér upp sem mögulegum arftaka Pútíns.
Deilt um hverjir sóttu fram í Soledar
Reuters segir frá því að talsmenn rússneska hersins hafi sagt að það hafi verið fallhlífarhermenn sem hafi umkringt Soledar. Úkraínumenn segja hins þar að auki að enn sé barist í bænum og að liðsauki hafi verið sendur þangað.
Þá hefur Reuters eftir Dmitry Peskov, talsmanni Pútíns, að enn sé of snemmt að segja til um fall Soledar. Þó árangur hafi náðst hafi hann verið mjög kostnaðarsamur.
Heimildarmaður AP fréttaveitunnar í úkraínska hernum segir árásir Rússa á Soledar vera linnulausar. Árásirnar byrji á því að Rússar sendir eina eða tvær „bylgjur“ af málaliðum Wagner til að kanna varnir Úkraínumanna. Svo þegar þær árásir hafa tekið sinn toll á Úkraínumönnum og þeir eru þreyttir og með minna af skotfærum, sendi Rússar atvinnuhermenn.
Það séu fallhlífarhermenn og sérsveitarmenn.
Fall Bakhmut myndi opna leið fyrir Rússa til að sækja fram að hinum mikilvægu bæjum Kramatorsk og Sloviansk. Svæðið er þó mjög víggirt og óljóst er hvort Rússar hafi yfir höfuð burði til að taka bæina, í ljósi þess hvað Bakhmut hefur reynst þeim erfiður biti að kyngja.