„Við vissum að þetta yrði í fyrsta lagi mjög erfitt verkefni, ég er búinn að tala um það allan tímann. Liðið sem við erum að vinna í kvöld er frábært lið.“
„Það sem ég er ánægður með er hvernig við byrjum leikinn. Hvernig varnarleikurinn er góður allan leikinn, fáum á okkur 26 mörk og markvarslan er góð. Síðan kemur kafli þar sem við förum fram úr okkur svolítið, erum að gera níu tæknifeila í fyrri hálfleik og þeir að nýta það í hröðum sóknum. Þannig voru þeir inn í leiknum að mínu mati.“
„Í síðari hálfleik gerum við aðeins þrjá tæknifeila og þar með fá þeir ekki þessi léttu mörk sem þeir fengu í fyrri hálfleik. Það var þolinmæðisvinna að taka þá en guð minn almáttugur þetta var erfitt eins og ég átti von á.“
„Ég er mjög stoltur af liðinu, gríðarleg barátta og frábær andi. Svo verð ég bara að segja eitt; maður felldi tár yfir þessum stórkostlegu stuðningsmönnum. Maður er klökkur eftir þetta, að upplifa þennan stuðning frá byrjun, þjóðsönginn og það sem kom eftir leikinn. Þetta er einstakt verð ég að segja.“
„Við héldum ró okkar, maður var að vissu leyti áhyggjufullur. Eða vonsvikinn meira, en ég sagði við þá að ef við fækkum tæknifeilum þá breytist leikurinn og það gerðu þeir. Það er mikill munur á níu tæknifeilum í fyrri en þremur í seinni. Við gáfum okkur meiri tíma í sóknina en þetta var ekki einfalt mál, þetta er mjög sterkt lið og við gerðum það sem það þurfti og meira til getur maður sagt,“ sagði Guðmundur að lokum.