Ísland tryggði sér í milliriðli á HM í handbolta karla með stórsigri á Suður-Kóreu, 25-38, í lokaleik sínum í D-riðli.
Íslendingar taka með sér tvö stig í milliriðil en það kemur ekki í ljós fyrr en eftir leik Portúgala og Ungverja hvort okkar menn vinni D-riðilinn.
Eftir mikla umræðu um hversu lítið Guðmundur Guðmundsson hefur nýtt breiddina á HM gerði hann fjórar breytingar á byrjunarliði Íslands í dag. Meðal þeirra sem kom inn var Óðinn Þór Ríkharðsson og hann þakkaði heldur betur traustið. Hann skoraði ellefu mörk úr fjórtán skotum og var markahæstur á vellinum.

Viktor Gísli Hallgrímsson lék allan leikinn í markinu og var sömuleiðis frábær. Hann varði 26 skot, eða 51 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.
Viggó Kristjánsson lék allan leikinn en Ómar Ingi Magnússon var hvíldur. Seltirningurinn átti góðan leik; skoraði sex mörk og gaf sjö stoðsendingar. Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk og Janus Daði Smárason fjögur.
Óðinn glansaði
Suður-Kórea skoraði fyrsta mark leiksins en Ísland næstu sex og Óðinn gerði þrjú þeirra. Alls skoraði hann átta mörk í fyrri hálfleik, þar af fimm eftir hraðaupphlaup.

Viktor Gísli var einnig magnaður í markinu fyrir framan vörn sem átti í fullu fangi með atorkusaman sóknarleik Suður-Kóreumanna. Þar var mikið í gangi og þeir keyrðu alltaf hraða miðju með misjöfnum árangri.
Þrátt fyrir dúndur frammistöðu Viktors Gísla sem varði fimmtán skot í fyrri hálfleik (54 prósent) skoraði Suður-Kórea þrettán mörk í honum. Vörnin hefði getað verið betri á köflum en ekkert til að hafa miklar áhyggjur af.
Góður sóknarleikur
Sóknin var aftur á móti stórgóð og Íslendingar voru með frábæra 78 prósent skotnýtingu í leiknum og skoruðu tólf mörk eftir hraðaupphlaup.
Janus Daði Smárason kom Íslandi í 7-15 en þá kom góður kafli hjá Suður-Kóreu sem skoraði fimm mörk gegn einu og minnkaði muninn í fjögur mörk, 12-16.
Íslendingar stigu þá aftur á bensíngjöfina og skoruðu þrjú af síðustu fjórum mörkum fyrri hálfleiks. Það var vel við hæfi að Óðinn skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Íslandi í 13-19.
Vörnin styrktist
Okkar menn hertu skrúfurnar í vörninni í seinni hálfleik og töpuðu boltarnir hrönnuðust inn hjá Suður-Kóreumönnum. Eftir að hafa aðeins tapað boltanum þrisvar sinnum í fyrri hálfleik tapaði Suður-Kórea honum ellefu sinnum í þeim seinni.

Íslenska liðið gekk hreint til verks eftir hálfleikshléið og eftir þrjú mörk í röð komst það níu mörkum yfir, 16-25. Enn var gefið í og Elvar Ásgeirsson jók muninn í 17-30 eftir 5-1 kafla Íslands.
Mestur varð munurinn sextán mörk, 21-37, en Suður-Kóreu lagaði stöðuna aðeins með því að skora fjögur af síðustu fimm mörk leiksins. Á endanum munaði því þrettán mörkum á liðunum, 25-38.
Nærandi sigur
Íslenska liðið þurfti nauðsynlega á svona sannfærandi sigri að halda eftir tapið sára fyrir Ungverjalandi á laugardaginn. Frammistaðan var góð og einbeitingin til staðar allan tímann sem er ekki sjálfgefið þegar getumunurinn er jafn mikill og á þessum tveimur liðum.
Þótt andstæðingurinn hafi verið slakur sýndi þessi leikur samt að breiddin í íslenska liðinu er til staðar og það vonandi að við fáum að sjá hana í milliriðlum sem hefjast eftir tvo daga. Næst verður förinni heitið til Gautaborgar og þar hyggja Íslendingar á frekari landvinninga.
