Myndir af hvalshræinu voru teknar á sunnudag, þar sem það rak í sjónum fyrir utan Njarðvík. Á myndunum má sjá veiðarfæri, sem höfðu flækst um haus dýrsins, og drógu hann að öllum líkindum til dauða.
„Það hefur algjörlega hindrað hann í að geta veitt. Það kannski hefur ekki endilega alveg lokað fyrir öndunarveginn á honum en smátt og smátt gefst hann upp og drukknar. Svo hann hlýtur ansi slæman dauðdaga þessi ungi hvalur,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur.
Athygli vakti að fjórir fullvaxta hnúfubakar syntu i nágrenni við hvalshræið sem Edda segir ekki óeðlilegt.
„Þeir eru mjög forvitnir um hvern annan, þeir eru miklar félagsverur. Það eru sífellt fleiri dæmi um að hnúfubakar aðstoði aðrar lífverur í háska,“ segir Edda.
Atvik á borð við þetta séu allt of algeng við Íslandsstrendur en rannsóknir sýna að um tuttugu prósent hnúfubaka við ísland hafi lent í veiðarfærum.
„Veiðarfæri og rusl í sjónum hefur aukist gríðarlega í sjónum síðustu áratugi á sama tíma og stofninn er að vinna sig aftur upp. Hér er ný ógn fyrir þessi dýr og virðist taka töluvert af dýrum á ári.“
Grípa þurfi til aðgerða fyrir þennan stofn sem áður hefur verið í útrýmingarhættu.
„Það er mikilvægt að við horfum á þessi tilfelli sem rauð flögg. Þetta er alvarlegt, þetta er eitthvað sem við þurfum að mæta. Þetta er ein af helstu dánarorsökum stórra hvala í heiminum í dag,“segir Edda.
„Það er okkar sök að þessi dýr eru að lenda í þessum aðstæðum og allt of oft.“