Napóleonsskjölin var frumsýnd 3. febrúar. Myndin byggist á samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar og segir frá spennandi og háskalegri atburðarrás sem fer af stað þegar gamalt flugvélaflak úr seinni heimstyrjöldinni finnst óvænt uppi á Vatnajökli. Atli fer með hlutverk Elíasar í myndinni.
„Elías er þessi týpíski ADHD-pési, elskar að vera úti í snjónum að leika sér og draga vini sína í ævintýri. En forvitnin kemur honum stundum í aðstæður sem hann ræður ekkert við,“ segir Atli. Hann segir tökur á myndinni hafa verið krefjandi, sérstaklega uppi á jökli og ömmur hans hafi haft áhyggjur af því að hann kvefaðist.
„Tökurnar voru krefjandi en ofboðslega skemmtilegar.
Ég hef verið minntur á það af ófáum frænkum og ömmum að ég var þarna sprangandi um uppi á jökli HÚFULAUS. Það var stundum svolítið kalt.
Svo voru þarna þó nokkur atriði á snjósleða sem var ógeðslega mikið fjör að skjóta. Ég hafði litla sem enga reynslu áður en tökur hófust en hafði verið aðeins á fjórhjólum og svoleiðis græjum, þannig ég var bara rólegur yfir þessu. Ég komst hins vegar ekki að því fyrr en seinna að það er víst hiti í handföngunum á sleðanum…það hefði verið þægilegt að vita það aðeins fyrr, ojæja, maður lifir og lærir,“ segir hann hlæjandi.
Atli segir samstarfið við Óskar Þór Axelsson, leikstjóra myndarinnar hafi verið draumi líkast. Óskar hefur leikstýrt myndum eins og Ég man þig, Stella Blómkvist og Svartur á leik en fyrir hana hlaut hann verðlaunin Handrit ársins 2012.
„Ég hef lengi viljað vinna með Óskari eða alveg frá því að ég sá Svartur á leik. Þetta var algjört drauma samstarf bara. Óskar hefur svo gaman af því sem hann gerir og það smitar út frá sér. Við skemmtum okkur konunglega við að glæða þennan karakter lífi og vorum oft að senda hugmyndir og pælingar okkar á milli alveg fram á lokadag eftirvinnslu,“ segir Atli.
Hafðirðu lesið bókina?
„Ég hafði ekki lesið bókina en ég gluggaði í hana samhliða undirbúningi fyrir tökurnar. Ég vildi þó halda því nokkuð aðskildu til að rugla ekki saman sögunni í handritinu. Ætli maður grípi ekki í hana núna þegar maður er búinn að skila karakternum frá sér.“