Leikur risanna tveggja í Evrópudeildinni á fimmtudag var beðið með mikilli eftirvæntingu enda spennan töluverð eftir 2-2 jafntefli í fyrri leiknum. Barcelona komst yfir í fyrri hálfleik á Old Trafford en United svaraði með tveimur mörkum og tryggði sér þar með sæti í næstu umferð keppninnar en spænsku risarnir eru úr leik.
Í Daily Mail er greint frá því að eftir leikinn á fimmtudag hafi stjörnuframherji Barcelona, Robert Lewandowski, látið ungstirnið Ansu Fati heyra það inni í klefa.
Lewandowski skoraði úr vítaspyrnu í leiknum en var augljóslega pirraður í síðari hálfleiknum þegar Fati náði boltanum á undan Lewandowski þegar fyrirgjöf kom sem ætluð var Pólverjanum öfluga.
Í klefanum eftir leik lét Lewandowski svekkelsi sitt bitna á Fati og þó svo að hann hafi ekki farið yfir strikið þá hafi hann bent Spánverjanum unga á að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þetta gerðist.
Fati, sem kom inná sem varamaður í leiknum, tók til varna og sagðist ekki hafa séð Lewandowski og hafi því sjálfur ætlað að reyna að ná skalla á markið.
Lewandowski hefur leikið frábærlega á sínu fyrsta tímabili á Spáni og skorað 25 mörk í 30 leikjum fyrir Katalóníufélagið.