„Hættur þessu helvítis tuðrusparki, takk fyrir mig allir,“ sagði einfaldlega í tilkynningu Guðmanns. Hann ól manninn hjá Breiðabliki í Kópavogi og færði sig þaðan til Noregs árið 2009 þar sem hann lék með Nybergsund í tvö ár.
Hann gekk síðan í raðir FH árið 2012 og var þar til ársins 2015 ef frá er talið eitt ár með Mjällby í Svíþjóð árið 2014. Varð hann tvívegis Íslandsmeistari með FH. Frá 2016 til 2018 lék Guðmann með KA áður en hann gekk aftur í raðir FH og var þar til ársins 2021.
Eftir það færði hann sig niður í Lengjudeildina þar sem hann lék með Kórdrengjum áður en hann lagði skóna á hilluna.
Alls lék Guðmann 155 leiki í efstu deild hér á landi og skoraði átta mörk. Þá lék hann einn A-landsleik á ferli sínum sem og 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.