Fótbolti

Segja að Åge Hareide verði til­kynntur sem lands­liðs­þjálfari Ís­lands á morgun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Åge Hareide gæti verið að taka við íslenska landsliðinu.
Åge Hareide gæti verið að taka við íslenska landsliðinu. vísir/getty

Norski miðillinn Verdens Gang segir að hinn 69 ára gamli Åge Hareide verði tilkynntur sem nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á morgun, föstudag.

Knattspyrnusamband Íslands hefur verið að leita að nýjum þjálfara síðan ákveðið var að láta Arnar Þór Viðarsson fara þann 30. mars síðastliðinn þar sem stjórn KSÍ hafði ekki lengur trú á honum sem þjálfara liðsins. 

Skömmu síðar staðfesti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, að planið væri að ráða reynslumikinn þjálfara. Fáir falla betur undir þá skilgreiningu en Åge Hareide.

VG segist nú hafa öruggar heimildir fyrir því að Åge Hareide verði tilkynntur sem nýr þjálfari íslenska landsliðsins á morgun, föstudag. Hareide sjálfur vildi ekki staðfesta neitt þegar VG hafði samband.

Ísland yrði þriðja landsliðið sem Hareide myndi stýra á annars glæsilegum ferli. Hann stýrði Noregi frá 2004 til 2008 og Danmörku frá 2016 til 2020. Þá hefur hann þjálfað félagslið á borð við Brøndby, Rosenborg, Malmö og Molde.

Einnig kemur fram í frétt VG að Hareide hafi áður hafnað boði um að taka við íslenska landsliðinu. Hvenær það var er ekki vitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×