Erlent

Kastaði haglaskotum í höllina

Samúel Karl Ólason skrifar
Verið er að undirbúa krýningu Karls Bretakonungs, sem fram fer næstu helgi.
Verið er að undirbúa krýningu Karls Bretakonungs, sem fram fer næstu helgi. AP/Frank Augstein

Lögreglan í Lundúnum hefur handtekið mann sem sagður er hafa kastað haglaskotum og öðrum munum að Buckingham höll. Grunsamlegur poki sem maðurinn var með í fórum sínum var sprengdur í loft upp.

Samkvæmt frétt Guardian var maðurinn handtekinn við hlið hallarinnar en engu skoti var hleypt af og enginn er særður. Karl konungur var ekki staddur í höllinni þegar maðurinn kastaði haglaskotunum að höllinni.

Tekið er fram í frétt Guardian að ekki sé talið að um hryðjuverk sé að ræða.

Sky segir manninn grunaðan um vörslu vopns og hefur miðillinn það eftir lögreglunni í Lundúnum.

Nokkur viðbúnaður er við höllina en verið er að undirbúa krýningu Karls Bretakonungs sem fer fram um næstu helgi. Þá hefur svæðið verið lokað af eftir að maðurinn var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×