Körfubolti

Kamerúni bestur í NBA en James fékk ekki atkvæði

Sindri Sverrisson skrifar
Joel Embiid var verðmætasti leikmaðurinn í NBA-deildinni í vetur.
Joel Embiid var verðmætasti leikmaðurinn í NBA-deildinni í vetur. Getty/Mitchell Leff

Joel Embiid, leikmaður Philadelphia 76ers, var í gærkvöld útnefndur verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta, í fyrsta sinn. Hann vann kosninguna með yfirburðum.

Embiid, sem er 29 ára gamall Kamerúni, er aðeins annar Afríkubúi sögunnar til að vera valinn verðmætastur í deildinni en því náði Hakeem Olajuwon einnig árið 1994.

Þetta er fimmta tímabilið í röð þar sem að leikmaður frá öðru landi en Bandaríkjunum er valinn verðmætastur, en Embiid er sá fyrsti til að handleika verðlaunagripinn eftir að ákveðið var í vetur að nefna verðlaunin í höfuðið á Michael Jordan.

Embiid varð stigahæstur í deildarkeppninni í vetur, annað árið í röð, með 33,1 stig að meðaltali í leik. Hann hefur misst af síðustu tveimur leikjum Philadelphia vegna meiðsla í hné og var því ekki með þegar liðið vann Boston Celtics í fyrsta leik í undanúrslitum austurdeildarinnar á mánudagskvöld.

LeBron James hefur spilað í NBA-deildinni frá árinu 2003 en í ár fékk þessi 38 ára gamli leikmaður í fyrsta sinn ekki eitt einasta atkvæði í kjörinu á verðmætasta leikmanni deildarinnar.

Nikola Jokic hjá Denver Nuggets kom næstur á eftir Embiid með 19 atkvæði en Embiid fékk 73 atkvæði í efsta sætið. Jokic hafði unnið verðlaunin síðustu tvö tímabil. Giannis Antetokounmpo úr Milwaukee Bucks, sem var valinn bestur 2019 og 2020, varð í þriðja sæti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×