„Þetta er bara geggjuð tilfinning, ekki hægt að lýsa þessu,“ sagði Thea í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik. „Við erum búnar að fara í nokkur úrslitaeinvígi sem við höfum ekki náð að klára. Það er svo geggjuð tilfinning sem fylgir því að ná að klára þessi einvígi.“
Lið ÍBV herjaði á Val undir lok leiks og lengi vel var útlit fyrir að leikurinn færi í framlengingu. Valskonur höfðu þó boltann og voru einu marki yfir þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum.
Thea gulltryggði hins vegar Íslandsmeistaratitilinn fyrir Val með lokamarki leiksins.
„Ég held ég hafi aldrei dripplað svona hægt á ævi minni og þetta er bara geggjað.“
Búast megi við algjöru sigurpartýi í Herjólfi á eftir þar sem að Íslandsmeistaratitillinn fer með Valskonum heim til Reykjavíkur.
„Vonandi er ekki vont í sjóinn en ég held að það muni ekki trufla okkur. “