Fótbolti

Sögu­leg endur­koma Mol­dóvu gegn Pól­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Moldóva vann vægast sagt óvæntan sigur.
Moldóva vann vægast sagt óvæntan sigur. Harry Langer/Getty Images

Segja má að sigur Moldóvu á Póllandi í undankeppni EM 2024 í knattspyrnu hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Sérstaklega ef horft er til þess að Pólverjar voru 2-0 yfir í hálfleik.

Á Chişinău-vellinum í Moldóvu voru 9442 sálir mættar til að sjá heimaliðið taka á móti Póllandi. Moldóva var með tvö stig að loknum þremur leikjum á meðan Pólland var með þrjú að loknum tveimur.

Fyrir fram var búist við nokkuð öruggum sigri gestanna enda þeir í 23. sæti heimslista FIFA. Á meðan Moldóva situr í 171. sæti af 211 þjóðum. Sigurinn svo sannarlega sögulegur og hvað þá ef horft er í hvaða þjóðir Moldóva hefur unnið undanfarin misseri og ár.

Síðustu sigurleikir liðsins komu í Þjóðadeildinni þar sem Moldóva lagði Liechtenstein tvívegis, Lettland og Andorra. Fara þarf aftur til 8. júní árið 2019 til að finna síðasta sigurleik liðsins í undankeppni EM eða HM. Sá kom gegn Andorra og var eini sigur liðsins í þeirri undankeppni.

Fara þarf alla leið aftur til 2013 til að finna sigur í undankeppni sem kom ekki gegn San Marínó eða Andorra. Þá vann Moldóva óvæntan 5-2 útisigur á Svartfjallalandi.

Til að gera sigurinn á Póllandi enn sætari þá kom Moldóva til baka eftir að lenda 2-0 undir. Báðir framherjar Póllands, Robert Lewandowski og Arkadiusz Milik, skoruðu í fyrri hálfleik og virtist leiknum einfaldlega lokið.

Allt kom fyrir ekki en Ion Nicolaescu skoraði tvívegis og jafnaði þar með metin áður en varnarmaðurinn Vladyslav Baboglo tryggði Moldóvu einn fræknasta sigur í sögu þjóðarinnar.

Sigurinn lyfti Moldóvu upp í 3. sæti E-riðils með 5 stig, tveimur meira en Pólland sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×