Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í síðustu viku, daginn eftir að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði samþykkt framkvæmdaleyfi vegna virkjunarinnar með fjórum atkvæðum gegn einu, þrátt fyrir að sjá lítinn hag fyrir nærsamfélagið.
Í fréttum Stöðvar 2 segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, að Hvammsvirkjun sé stærsta virkjunarframkvæmd sem fyrirhuguð sé í byggð á Íslandi.
„Sveitarfélagið okkar hefur engar tekjur af framkvæmdinni, engin fasteignagjöld og það eru engin störf sem verða til til framtíðar,“ segir Haraldur.

Sveitarstjórnin hyggst ekki sætta sig við óbreytt ástand.
„Við tókum þá ákvörðun að fleiri orkumannvirki verða ekki byggð meðan staðan er svona.“
Búrfellslundur, fyrirhugað vindorkuver ofan Búrfells, var færður í nýtingarflokk rammaáætlunar í fyrra, en þar sá Landsvirkjun fram á samrekstur með vatnsaflsstöðvum og að nýta innviði á svæðinu. Þannig eru allar háspennulínur til staðar til að flytja orkuna til notenda.
Landsvirkjun gerir ráð fyrir að Búrfellslundur framleiði um 440 gígavattstundir á ári miðað við þrjátíu vindmyllur. Í Hvammsvirkjun er fyrirhugað að framleiða um 720 gígavattstundir á ári.
Með því að nýta sér lagaheimild sem í reynd setur Búrfellslund í biðflokk sendir sveitarstjórnin þau skilaboð að hún treysti ekki ríkisstjórninni.

„Fögur fyrirheit um einhverskonar breytingar sem nú er búið að boða. Ég held að menn verði nú að hugsa aftur til Blönduvirkjunar 1991 og þau fögru fyrirheit sem komu um atvinnuuppbyggingu þar. Menn eru ennþá að bíða.
Við einfaldlega erum að segja: Þetta þjónar ekki hagsmunum okkar þegar okkar tekjustofnar eru undanþegnir.“
-Þetta er sem sagt þvingunaraðgerð?
„Þetta er bara mjög skynsamleg aðgerð gagnvart nærumhverfinu; að byggja upp atvinnu sem sannarlega eflir nærsamfélagð,“ svarar oddvitinn.

Landsvirkjun segir mögulega seinkun á Hvammsvirkjun slæmar fréttir þegar skortur á endurnýjanlegri orku sé fyrirsjáanlegur á næstu árum. Litlar líkur virðast á að hægt verði að bjarga málum með því að reisa vindorkuver í staðinn á svæðinu.
-En hvað þarf að gerast til að þið samþykkið vindmyllugarð við Búrfell?
„Við þurfum bara að sjá skýra lagaumgjörð sem gerir þetta sanngjarnt, gagnvart bæði þeim sem eru með þetta í nærumhverfinu sínu og notandanum,“ svarar Haraldur Þór Jónsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: