Fótbolti

Stór­þjóðir úr leik á Evrópu­mótinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Þjóðverja ganga niðurlútir af velli eftir tapið gegn Englandi í dag.
Leikmenn Þjóðverja ganga niðurlútir af velli eftir tapið gegn Englandi í dag. Vísir/Getty

Riðlakeppni Evrópumóts U-21 árs landsliða í knattspyrnu. Englendingar tryggðu sér örugglega sæti í 8-liða úrslitum en þrjár stórþjóðir eru fallnar úr leik.

Úrslitakeppni U-21 árs landsliða í knattspyrnu fer nú fram í Rúmeníu og Georgíu. Í gær lauk keppni í tveimur riðlum og náðu heimamenn í Georgíu að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum á kostnað Hollendinga.

Þetta varð lajóst eftir að liðin gerðu jafntefli í leik þeirra í gær en á sama tíma vann Portúgal 2-1 sigur á Belgíu og tryggði sig áfram ásamt Georgíu.

Í B-riðli fóru lið Spánar og Úkraínu örugglega upp úr riðlinum. Bæði lið unnu sína leiki gegn Króatíu og Rúmeníu og gerðu síðan jafntefli í innbyrðisviðureign sinni. Spánn endar þó í efsta sæti með betra markahlutfall en Úkraína.

Harvey Elliott leikmaður Liverpool skoraði frábært mark fyrir Englendinga gegn Þjóðverjum í dag.Vísir/Getty

Keppni í C-riðli lauk fyrr í dag. Þar vann England alla sína leiki og vann riðilinn en Ísrael kom mörgum á óvart og tryggði sér einnig sæti í 8-liða úrslitum. Lið Þjóðverja hafnaði í neðsta sæti riðilsins með aðeins eitt stig en Tékkar enduðu í þriðja sæti en þeir töpuðu 1-0 fyrir Ísrael í dag.

Frakkar höfðu talsverða yfirburði í D-riðli sem lauk í kvöld. Frakkland vann alla sína leiki í riðlinum, þann síðasta gegn Sviss í kvöld sem fara þó áfram en skilja Ítalíu og Noreg eftir fyrir neðan sig en þrjú neðstu liðin enduðu öll með þrjú stig í riðlinum.

Holland, Þýskaland og Ítalía þurfa því öll að kveðja keppnina eftir riðlakeppnina en Þjóðverjar áttu titil að verja fyrir mótið.

Svona líta 8-liða úrslitin út

Laugardaginn 1.júlí

Georgía gegn Ísrael

Spánn gegn Sviss

Sunnudaginn 2.júlí

England gegn Portúgal

Frakkland gegn Úkraínu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×