Erlent

Sjö ára rannsóknarferðalagi Osiris-Rex lokið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vísindamenn mættu á þyrlum á lendingarstað Osiris rex og þeim var mikið í mun, enda líkur á því að dýrmætt sýni geimfarsins mengist af andrúmslofti jarðarinnar.
Vísindamenn mættu á þyrlum á lendingarstað Osiris rex og þeim var mikið í mun, enda líkur á því að dýrmætt sýni geimfarsins mengist af andrúmslofti jarðarinnar. ap

Bandaríska geimfarið Osiris-Rex lenti við mikinn fögnuð í Utah fylki í Bandaríkjunum í dag. Sjö ár eru síðan það var sent út í geim í þeim tilgangi að safna tveimur kílóum af bergsýnum úr smástirninu Bennu og koma þeim aftur til jarðar. Vonir eru bundnar við að innihald hylkisins geti varpað frekara ljósi á hvernig sólkerfið okkar myndaðist og hugsanlega hvernig lífið kviknaði og þróaðist á jörðinni.

NASA, Bandaríska geimrannsóknarstofnunin, birti í dag myndband þar sem vísindamenn kanna farið í fyrsta sinn frá því að það lagði af stað í leiðangurinn.

Áður hefur verið fjallað um Osiris-Rex sem lagði af stað frá jörðu árið 2016 og sneri aftur heim á leið í október 2020 eftir að lokið var við að tryggja dýrmætt sýni af yfirborði smástirnisins Bennu. Talið er að Bennu sé um 4,6 milljarða ára gamalt smástirni og að sýnið geymi þar sem einhver elstu efni sólarkerfisins. Eins og áður segir er því vonast til að sýnið gefi vísindamönnum frekari vísbendingar um það hvernig pláneturnar í sólkerfinu hafi myndast.

Samtals ferðaðist geimfarið tæplega 6,5 milljarða kílómetra á leið sinni til og frá Bennu en einungis tuttugu mínútum eftir að sýnið var tekið úr geimfarinu var það sent í annað verkefni, að kanna smástirnið Apophis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×