Fjallað var um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar. Guðlaugur Þór rakti að Íslendingum hefði frá árinu 2005, viðmiðunarári Kyoto-bókunarinnar, tekist að draga úr losun um tólf prósent. Miðað við nýjustu sviðsmyndir stefndi í að Íslendingar næðu samdrætti upp á 26 prósent.
„En við þurfum að ná 40 prósent fyrir árið 2030. Og 2030 er á morgun,“ sagði ráðherrann. Og rifjaði upp að Íslendingar hefðu nýlega neyðst að kaupa loftslagsheimildir fyrir 250 milljónir króna þar sem ekki var staðið við skuldbindingar um landgræðslu og skógrækt.
„Og ef við náum ekki markmiðunum árið 2030 þá er kostnaðurinn, miðað við þær forsendur sem eru núna, svona einn milljarður til tíu milljarðar á ári. Ekki eingreiðsla sem var í uppgjörinu varðandi Kyoto.
En ef við náum hins vegar markmiðunum þá seljum við loftslagsheimildir og höfum tekjur af því, eins og við höfum haft á undanförnum árum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Hann nefndi fiskimjölsverksmiðjur, húshitun og bíla sem dæmi um aukna losun milli ára vegna aukinnar notkunar jarðefnaeldsneytis þar sem skort hefði græna orku. Hann sagði loftslagsmálin snúast um að afla grænnar orku í stað jarðefnaeldsneytis.
„Á undanförnum fimmtán árum hefur verið algjör stöðnun í framleiðslu á grænni orku á Íslandi. Það hefur bara verið stöðnunartímabil.
Við höfum á þessum miklu uppbyggingartímum á Íslandi að meðaltali verið að auka uppsett afl um 24 megavött á ári. Þess vegna erum við að horfa á þessi vandræði sem við erum að horfa á í dag. Vegna þess að þetta snýst um það að okkur vantar græna orku. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á haustfundi Landsvirkjunar.