Fyrir rúmlega tveimur vikum síðan, þann 27. síðasta mánaðar, var ráðist á mann á gangi á Hverfisgötu í Reykjavík. Sá sem fyrir árásinni varð slasaðist talsvert og dvaldi á spítala næturlangt.
Hann var gestur á ráðstefnu sem haldin var af Samtökunum '78 í samvinnu við forsætisráðuneytið og Norrænu ráðherranefndina. Hátt í hundrað fulltrúar frá öllum helstu samtökum hinsegin fólks á Norðurlöndum tóku þátt. Sá sem ráðist var á var með hálsband skreytt litum hinsegin fólks og málið er rannsakað sem mögulegur hatursglæpur.
Mjög óvanalegt að slík mál séu ekki leyst
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að rannsókn málsins sé nánast á byjunarreit. Rannsakendur fari helst yfir mikið magn upptaka úr öryggismyndavélum, sem eru víða á Hverfisgötu og nágrenni.
Þá segir hann að mjög óalgengt að mál af þessum toga séu ekki leyst. Langflest alvarleg ofbeldisbrot leysist fljótt og til að mynda sé ekkert morðmál síðari ára óleyst.