Stórum fólksbílum fjölgar hratt
Stórum fólksbílum og fjórhjóladrifnum bílum fjölgar óðfluga í mörgum stórborgum Evrópu. Þeim hefur til að mynda fjölgað um 300% hér á Spáni á síðustu 10 árum og eru nú 60% af bílaflota Spánverja. Þeir taka, eðli málsins samkvæmt, meira pláss í umferðinni og þeir flytja sífellt færri farþega á milli staða.
Yfirvöld tveggja borga í Frakklandi, Parísar og Lyon, hafa nú ákveðið að hækka bílastæðagjöld stærri fólksbíla með þeim rökum að þeir noti meira pláss og að þeirra vegna verði allt viðhald gatna dýrara en áður.
Æ færri farþegar í hverjum bíl
Manuel Romana, verkfræðingur við tækniháskólann í Madrid, segir í samtali við spænska dagblaðið El País að stórum bílum fjölgi af ýmsum ástæðum; þeim fylgi orðið alls kyns öryggisbúnaður sem taki pláss, fólk vilji sitja hærra til að auka öryggi sitt og stór bíll sé líka ákveðið stöðutákn í velmegandi samfélögum Evrópu. Þetta sé samt í andstöðu við þá þróun að fjölskyldur verði æ fámennari og nú séu að meðaltali rétt um 1,3 manneskjur um borð í hverjum bíl sem aki um stórborgir álfunnar.
Stórir bílar menga meira og valda meiri skaða
Borgaryfirvöld í Lyon segja í fréttatilkynningu um hækkunina að þessir stóru bílar eyði meira eldsneyti og mengi þar af leiðandi meira, þeir þurfi meira rými í bílastæðum sem séu sameiginleg eign almennings og þeir valdi meiri skaða þegar þeir lenda í slysum en minni fólksbílar.
Umferðarsérfræðingar hér á Spáni hafa nú opnað á umræðuna um þörf þess að leggja hærri gjöld á eigendur stærri bíla, en borgaryfirvöld stærstu borga landsins hafa þó ekki uppi nein áform um að gera slíkt á næstunni, hvað svo sem síðar kann að verða. En umræðan er alla vega hafin.