Fótbolti

Settu sinn eigin leik­mann í bann fyrir að tjá sig um stríð Ísraels og Hamas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anwar El Ghazi fær ekki að spila leik FSV Mainz 05 um helgina.
Anwar El Ghazi fær ekki að spila leik FSV Mainz 05 um helgina. Getty/Christian Kaspar-Bartke

Þýska félagið Mainz hefur sett framherja sinn Anwar El Ghazi í agabann eftir að hann tjáði sig frjálslega á samfélagsmiðlum um stríðsátökin undir botni Miðjarðarhafs.

El Ghazi er fyrrum leikmaður Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni en hann kom til Mainz í september. El Ghazi hefur eytt færslunni sinni en forráðamenn Mainz sýna enga miskunn.

Bardagamenn Hamas samtakanna er sagðir hafa drepið meira en fjórtán hundruð Ísraelsmenn 7. október síðastliðinn eftir árás sem kom Ísrael mikið á óvart. Ísrael lýsti yfir stríði og síðan hafa yfir þrjú þúsund Palestínumenn farist í hefndarárásum Ísraelsmanna. Ástandið er mjög slæmt og engin lausn í sjónmáli.

„Mainz 05 ber virðingu fyrir því að það eru mörg sjónarmið uppi varðandi hið flókna ástand í átökunum í Mið-Austurlöndum, átökum sem hafa staðið yfir í áratugi,“ skrifaði þýska félagið á samfélagsmiðla sína.

„Samt sem áður þá vill félagið taka það fram að það hafði ekkert með þessa færslu að gera og innihald hennar er ekki það sem félagið stendur fyrir,“ skrifaði Mainz.

Félagið gaf það samt ekki upp hvað El Ghazi hafði skrifað í þessari færslu sinni.

El Ghazi hefur síðan skrifað aðra færslu þar sem hann segist hafa fengið neikvæð skilaboð eftir umrædda færslu sína á samfélagsmiðlum.

„Ég vil taka það skýrt fram að ég vil frið ofar öllu,“ skrifaði hinn 28 ára gamli Anwar El Ghazi.

El Ghazi kallaði líka eftir meiri samúð og að fólk kynnti sér betur söguna á bak við þessi átök undir botni Miðjarðarhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×