Erlent

Repúbli­könum mis­tekst leið­toga­valið í þriðja sinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tom Emmer er þingmaður Repúblikanaflokksins fyrir Minnesota ríki.
Tom Emmer er þingmaður Repúblikanaflokksins fyrir Minnesota ríki. AP Photo/Alex Brandon

Repúblikönum í full­trúa­deild Banda­ríkja­þings tekst ekki að velja þing­for­seta en Tom Em­mer varð í dag þriðji Repúblikaninn á ör­skömmum tíma sem ekki fær nægilegan stuðning í atkvæðagreiðslum þingmanna. Flokkurinn fer með meiri­hluta í full­trúa­deildinni.

Eins og þekkt er var Kevin Mc­Cart­hy vikið úr em­bætti þing­for­seta í byrjun mánaðarins þegar átta Repúblikanar og allir þing­menn Demó­krata­flokksins greiddu at­kvæði með van­trausts­til­lögu gegn honum. Þing­mennirnir átta voru þeir sömu og komu lengi í veg fyrir að hann yrði for­seti í upp­hafi kjör­tíma­bilsins.

Síðan þá hafa Repúblikanar til­nefnt bæði Ste­ve Scalise og Jim Jordan til þing­for­seta. Scalise dró fram­boð sitt til baka en Jordan tókst ekki að tryggja sér nægi­legan fjölda at­kvæða.

Í um­fjöllun New York Times um málið kemur fram að stuðnings­menn Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta, hafi ekki tekið Em­mer í sátt. Hann hafi því ekki getað tryggt sér nægi­legan fjölda at­kvæða.

Banda­ríska sjón­varps­stöðin CNN segir Repúblikana nú á neyðar­fundi vegna málsins. Þeir vilji róa öllum árum að því að leysa úr þessari klemmu sem fyrst. Hugmynd hefur komið fram um að Kevin Mc­Cart­hy og Jim Jordan bjóði sig fram aftur, að þessu sinni saman.

Lætur sjón­varps­stöðin þess getið að hug­myndin sé ein af mörgum sem nú séu á teikni­borðinu hjá Repúbli­könum. Flokkurinn fer með lítinn meiri­hluta í full­trúa­deildinni en 217 þing­menn hans þurfa að sam­þykkja þing­for­setann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×