Fótbolti

Belgar unnu endurkomusigur gegn Evrópumeisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Belgar unnu mikilvægan sigur gegn Englendingum í kvöld.
Belgar unnu mikilvægan sigur gegn Englendingum í kvöld. Vísir/Getty

Belgía vann sterkan 3-2 sigur er liðið tók á móti Evrópumeisturum Englands í riðli 1 í A-deild Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Laura Deneve kom belgíska liðinu yfir strax á níundu mínútu leiksins, en Lucy Bronze jafnaði metin fyrir Englendinga á 38. mínútu áður en Fran Kirby kom gestunum yfir sex mínútum síðar.

Tessa Wullaert jafnaði þó metin fyrir Belga á sjöttu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var því 2-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Wullaert var svo aftur á ferðinni fimm mínútum fyrir leikslok er hún tryggði belgíska liðinu sigurinn með marki úr vítaspyrnu.

Niðurstaðan því 3-2 sigur Belga sem stökkva upp í annað sæti riðilsins með sigrinum. Liðið er nú með sjö stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum á eftir Hollendingum sem tróna á toppinum og einu stigi meira en Englendingar sem sitja í þriðja sæti.

Á sama tíma vann topplið Hollands einmitt 0-1 sigur gegn Skotum þar sem Esmee Virginia Brugts skoraði eina mark leiksins. Hollendingar eru sem fyrr segir á toppi riðilsins með níu stig, en Skotar reka lestina með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×