Erlent

Öllum bjargað eftir sau­tján daga

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikið púður hefur verið lagt í að bjarga mönnunum úr göngunum en þar hafa þeir setið fastir í sautján daga.
Mikið púður hefur verið lagt í að bjarga mönnunum úr göngunum en þar hafa þeir setið fastir í sautján daga. AP

Búið er að bjarga mönnunum 41 úr göngum sem hrundu að hluta til á Indlandi. Mennirnir höfðu setið fastir í göngunum í sautján daga. Þeir unnu við að grafa göng undir fjall í Uttarakhand-héraði þegar þeir festust þar inni.

Göngin áttu að vera 4,5 kílómetra löng en þann 12. nóvember leiddi aurskriða til þess að hluti þeirra, um tvö hundruð metra frá innganginum, hrundi.

Síðan göngin hrundu hefur verið unnið að því að grafa mennina út. Talsmaður ríkisstjóra Uttarakhand segir að tólf menn hafi unnið að því í nótt að klára að bora sér leið í gegnum brakið. Í heildina hafi þeir borað rúma 58 metra til að komast að mönnunum.

Viðbragðsaðilum tókst að halda lífi á mönnunum með því að koma mjóum stálrörum í gegnum brakið sem aðskildi mennina frá yfirborðinu. Matur fór í gegnum rörin og var súrefni dælt í gegnum þau.

Fyrstu mönnunum var bjargað út á þriðja tímanum í dag, að íslenskum tíma. Allir eru nú komnir út og enginn þeirra ku vera í alvarlegu ástandi, samkvæmt frétt Times of India.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá Indlandi í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×