Enski boltinn

Færir sig nær kærustunni: Ekki í sama lið en í sömu borg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristie Mewis var mætt til London þegar  Sam Kerr tryggði Chelsea enska bikarinn á Wembley í fyrra.
Kristie Mewis var mætt til London þegar  Sam Kerr tryggði Chelsea enska bikarinn á Wembley í fyrra. Getty/John Walton

Bandaríska landsliðskonan Kristie Mewis er sögð vera að skipta yfir í enska úrvalsdeildarfélagið West Ham og verða þar með nýr liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur.

The Athletic er meðal þeirra miðla sem greina frá því að Mewis verði fyrsti leikmaðurinn sem West Ham tryggir sér nú þegar janúarglugginn opnar.

Mewis er 32 ára gömul og hefur spilað í bandarísku deildinni nær alla tíð. Hún fór þó á láni til Bayern München á 2015-16 tímabilinu en það er hennar eina reynsla af evrópska félagsliðaboltanum.

Dagný er frá keppni á þessu tímabili þar sem hún á von á sínu öðru barni og það væri því mjög gott fyrir West Ham liðið að fá svona öflugan liðstyrk inn á miðjuna.

Mewis lék með NJ/NY Gotham FC í ár og varð bandarískur meistari með liðinu á dögunum.

Mewis missti af hluta tímabilsins vegna bæði meiðsla og heimsmeistaramótsins í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en hún lagði upp markið sem kom Gotham liðinu í úrslitaleikinn um bandaríska meistaratitilinn.

Það fylgir líka sögunni að Mewis færir sig nú mun nær kærustunni sem er ástralska knattspyrnukonan Sam Kerr.

Kristie og Sam tilkynntu á dögunum um trúlofun sína en þær hafa hingað til spilað með liðum í sitthvorri álfunni. Kerr í Englandi og Ástralíu en Mewis í Bandaríkjunum.

Nú munu þær spila í sömu borginni því Kerr er leikmaður Chelsea sem er auðvitað líka í London eins og West Ham.

Í nýlegu viðtali var kærustuparið að leita sér að nýrri íbúð í London en hvort hún verði í Chelsea hverfinu eða West Ham hverfinu eða jafnvel allt annars staðar verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×