Erlent

Naval­ní heilsast vel og sendir há­tíðar­kveðjur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Navalní hefur setið í fangelsi frá árinu 2021.
Navalní hefur setið í fangelsi frá árinu 2021. EPA

Alexei Navalní leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi segist við góða heilsu eftir að hafa fundist í fanganýlendu í Síberíu eftir margra daga leit. Hann sendi fylgjendum sínum hátíðarkveðjur í tilkynningu á X í morgun. 

Ekkert hafði spurst til Navalní, sem er einn helsti pólitíski andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta, í nítján daga þegar hann fannst í fanganýlendu í Síberíu. 

Talskona hans Kira, Yarmysh, staðfesti í gær að hann væri fundinn og hefði verið færður til IK-3 fanganýlendunnar í sjálfstjórnarhéraðinu Yamalo-Nenets í norður-Rússlandi.

Navalní birti færslu á X í morgun þar sem honum sagðist líða vel og hann væri feginn að hafa loks fundist. Þá líkti hann sjálfum sér við jólasveininn í ljósi þess að hann hafi skilað sér í fangelsið á jóladag.

Hélt að hann myndi ekki finnast strax

„Þeir fóru með mig hingað [í fanganýlenduna] á laugardag. Ég var fluttur með svo mikilli varúð og svo furðulega leið að ég bjóst ekki við að nokkur myndi finna mig fyrr en um miðjan janúar,“ skrifar Navalní á X.

„Þess vegna kom það mér mjög á óvart þegar fangaklefinn minn var opnaður í gær með orðunum: Það er lögmaður hérna sem vill ræða við þig. Hann sagði mér að þið hefðuð týnt mér, og að einhver ykkar hefðu áhyggjur. Kærar þakkir fyrir stuðninginn!“ skrifar hann jafnframt. 

Þá segir hann fylgjendum að hafa ekki áhyggjur af sér, hann hafi það fínt. Loks sendir hann hátíðarkveðjur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×