Enski boltinn

Howard Webb segir að Liverpool hafi átt að fá víti á móti Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah vildi skiljanlega fá víti en fékk ekki. Nú er komið í ljós að það var rangur dómur.
Mohamed Salah vildi skiljanlega fá víti en fékk ekki. Nú er komið í ljós að það var rangur dómur. Getty/ Jacques Feeney

Liverpool varð mögulega af tveimur stigum í mikilvægum leik á móti Arsenal þökk sé mistökum dómarahópsins.

Liverpool og Arsenal gerðu jafntefli í toppslag í ensku úrvalsdeildinni á dögunum en umdeilt atvik varð í leiknum þegar Arsenal maðurinn Martin Ödegaard handlék boltann í vítateignum þegar Mohamed Salah var að fara fram hjá honum.

Dómari leiksins dæmdi ekki vítaspyrnu og myndbandsdómarar töldu að það hafi ekki verið ástæða til að dæma viti þótt að Norðmaðurinn hafi augljóslega stöðvað boltann með hendi.

Howard Webb, yfirmaður knattspyrnudómara í enska boltanum, viðurkenndi á viðtali á TNT sjónvarpsstöðinni að myndbandsdómarar hafi þarna gert mistök.

Webb segir að dómararnir hafi talið að Ödegaard hafi verið að bera höndina fyrir sig þegar hann missti jafnvægið.

Webb benti hins vegar á það að þetta hafi verið víti af því að Ödegaard dregur hendina í átt að líkamanum sínum og tekur um leið boltann með sér. Um leið og hann gerir það er hann ekki lengur bara að styðja sig við grasið heldur græða á snertingu hennar við boltann.

„Hann græðir augljóslega mikið á því að draga hendina að líkamanum og stoppa feril boltans. Öll skilaboð sem við fengum var að allir sem koma að leiknum búast við því að þarna sé dæmt víti. Ég er sammála því og þetta er dæmi um það að VAR komst ekki að réttri niðurstöðu,“ sagði Howard Webb eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×