Innlent

Raf­magns­laust eftir að stofn­strengur undir hrauni gaf sig

Lovísa Arnardóttir skrifar
Unnið er að því að koma varaaflsstöð Landsnets aftur í bæinn til að fá rafmagn á bæinn.
Unnið er að því að koma varaaflsstöð Landsnets aftur í bæinn til að fá rafmagn á bæinn. Vísir/Björn Steinbekk

Rafmagn fór af Grindavík á áttunda tímanum í morgun þegar stofnstrengur, sem er undir hrauni, gaf sig. Unnið er að því að koma rafmagni á bæinn.

„Það er búið að vera rafmagnslaust síðan 7.15 í morgun og virðist sem svo að stofnstrengurinn sem liggur undir hrauninu frá Svartsengi til Grindavíkur hafi gefið sig,“ segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi HS Veitna sem sér um dreifingu rafmagns í Grindavík. Hún segir unnið að því að koma á rafmagni með varaaflsstöð Landsnets.

Birna Lárusdóttur, upplýsingafulltrúi HS Orku, segir allt með felldu í orkuverinu í Svartsengi.

„Það er verið að flytja varaaflsstöð Landsnets aftur í bæinn,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, og að hún eigi von á því að rafmagn verði komið aftur á síðar í dag.

„Það er verið að vinna í þessu. Það tekur líklega nokkurn tíma að tengja varaaflstöðina en vonandi kemst rafmagn aftur á þá,“ segir Hjördís.

Rafmagn og heitt vatn fóru af bænum um síðustu helgi þegar byrjaði að gjósa við bæinn. Búið var að koma á heitu vatni og rafmagni á stærstan hluta bæjarins þegar rafmagnið fór svo aftur í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

„Eykur óvissuna enn og aftur“

Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, segir að sér hafi liðið vel í Grindavík í dag þar sem hann, ásamt fleirum, vann í bænum. Vinnu við að koma hita og rafmagni á hús í Grindavík var frestað í dag vegna snjóþyngsla, en björgunarsveitir og slökkvilið voru í bænum og unnu að því að moka snjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×