Handbolti

Sigur Ís­lands á síðasta EM situr enn í Frökkum sem ætla að hefna sín

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenska liðið fagnaði sigrinum gegn Frökkum vel og innilega fyrir tveimur árum. Fagnaðarlætin fóru hins vegar öfugt ofan í Frakkana.
Íslenska liðið fagnaði sigrinum gegn Frökkum vel og innilega fyrir tveimur árum. Fagnaðarlætin fóru hins vegar öfugt ofan í Frakkana. Getty/Sanjin Strukic

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann frækinn átta marka sigur gegn Frökkum í milliriðili á EM 2022 í Svíþjóð og Ungverjalandi. Liðin mætast nú aftur í milliriðli EM síðar í dag og ætla Frakkar að hefna fyrir ófarirnar.

Í viðtali við Nedim Remili, leikmann franska landsliðsins, sem birtist á L'Equipe í morgun segir Remili að Frakkar vilji hefna sín á tapinu gegn Íslendingum á EM 2022. Remili tók reyndar ekki þátt í leiknum vegna meiðsla.

„Klárlega viljum við hefna okkar, þó að mér líki ekkert sérstaklega við það orð því að á endanum komumst við í undanúrslit en ekki þeir,“ sagði Remili.

Íslenska liðið lék á als oddi í leik liðanna á EM 2022 og vann að lokum átta marka sigur, 29-21. Gleðin leyndi sér ekki í leikslok og virtust fagnaðarlætin fara í taugarnar á frönsku leikmönnunum.

„Við erum reiðir,“ hélt Remili áfram og glotti. „Fyrir tveimur árum fögnuðu Íslendingar sigrinum fullmikið og það pirraði okkur. Þetta pirraði liðið.“

„Það hafa allir rétt á að fagna eins og þeir vilja, en þegar þetta er svona mikið lítur það pínu út eins og hálfgerð vanvirðing. Þegar þetta fer út í það þá getur það verið pirrandi. Þetta situr aðeins í mér, og okkur öllum. En það mikilvægasta er að við vinnum þennan leik,“ sagði Remili að lokum.

Ísland og Frakkland mætast á EM í Þýskalandi síðar í dag og verður leiknum lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi. Flautað verður til leiks klukkan 14:30, en upphitun fyrir leikinn hefst um það vil tveimur tímum fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×