Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Grindavík 84-106 |Fimm deildarsigrar í röð hjá Grindvíkingum Ágúst Orri Arnarson skrifar 25. janúar 2024 21:00 Grindvíkingar fögnuðu sigri í Smáranum í kvöld vísir / hulda margrét Breiðablik tók á móti Grindavík á sameiginlegum heimavelli liðanna tveggja í Smáranum. Eftir jafnan leik framan af tók Grindavík fram úr snemma í seinni hálfleik og Breiðablik átti ekki afturkvæmt, lokatölur 84-106 Grindavíkursigur. Sterk byrjun Blika Eins og svo oft áður á tímabilinu byrjaði Breiðablik leikinn vel, hittu úr stórum skotum og spiluðu fínan varnarleik gegn Grindvíkingum. Blikarnir náðu mest upp tíu stiga forystu í fyrri hálfleik en gekk illa að halda henni. Þeir gáfu boltann frá sér þrjár sóknir í röð og fljótlega var Grindavík búið að minnka muninn verulega. Furðulegt skotval og skrítnar ákvarðanir leikmanna Breiðabliks gerði Grindavík kleift að jafna leikinn og komast svo einu stigi yfir rétt áður en fyrri hálfleikur rann sitt skeið. Jöfnunarkarfan kom eftir mikinn barning Julio De Asisse í vítateig Breiðabliks og Arnór Helgason kom Grindvíkingum svo yfir með troðslu eftir ‘alley-oop’ sendingu frá Dedrick Basile. Þakkarorð í hálfleik Formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur nýtti hálfleikinn til að koma þökkum á framfæri til Breiðabliks fyrir góðvild sína og gestrisni í þeirra garð eftir áföllin sem hafa dunið yfir Grindavík undanfarna mánuði. Meistaraflokkur karla og kvenna í körfubolta í Grindavík hafa æft og spilað í Smáranum síðan í nóvember. Leikmenn Grindavíkur sýndu Breiðablik hins vegar enga hugulsemi þegar út í seinni hálfleikinn var komið. Þeir stálu boltanum í tvígang af Blikum sem brutu klaufalega af sér hinum megin á vellinum. Fljótlega náði Grindavík upp góðri forystu sem Blikar áttu erfitt með að minnka. Spennulítið undir lokin Það gerði svo algjörlega útslagið þegar Keith Jordan, helsta sóknarvopn Breiðabliks, kom sér í villuvandræði og var sendur velli um miðjan fjórða leikhluta. Fljótlega eftir það tóku bæði lið byrjunarliðsmenn af velli og létu rusltímann líða. 22 stiga sigur Grindavíkur varð það að endingu og þeir hafa nú unnið fimm leiki í röð í Subway deildinni. Ívar Ásgrímsson: Ódýrt og ungt lið sem ekki er hægt að ætlast til að vinni Grindavík á þeirra heimavelli Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks. Vísir/Anton Brink „Mér fannst við spila vel svona 80% af leiknum. Fór heilmikil orka í fyrri hálfleikinn, vorum að keyra hratt. Zoran og Snorri voru orðnir þreyttir undir lokin, svo lendum við í að fá þrjár varla snertingsvillur á Keith. Þá fjaraði svolítið undan þessu hjá okkur þegar við missum hann útaf. Erfitt að missa hann útaf í svona leik en þeir eru bara með gott lið og við réðum illa við þá“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, strax að leik loknum. Það var augljóst á meðan leik stóð að Ívar og aðrir Blikar væru alls ekki sáttir við dómgæsluna í kvöld. Keith Jordan lenti í villuvandræðum í byrjun þriðja leikhluta og var svo rekinn af velli í fjórða leikhluta. „Við erum mjög ósáttir við hvernig villur við fáum á okkur miðað við hvernig villur þeir fá á sig. Mér fannst ekkert samræmi í því og það bitnaði aðeins á okkur. Misstum Keith útaf og þá vantaði meiri sóknarógn. Heilt yfir, fram að fjórða leikhluta, vorum við að spila nokkuð vel og við getum byggt á því. Margir sem leggja í púkkið og leggja sig fram og við sýndum í fyrri hálfleik að við getum spilað helvíti góðan körfubolta.“ Ívar taldi liðið hafa staðið sig vel í kvöld en sagði ekki hægt að búast við því að sækja sigur gegn Grindavík á „þeirra heimavelli“. Hann sagðist svekktur að hafa ekki sótt úrslit úr síðustu tveimur leikjum. „Við vissum að þetta yrði erfitt strax frá byrjun, erum með bæði ódýrt og ungt lið. Við erum að keppa við lið núna sem ætlaði sér að verða Íslandsmeistari. Við vissum að það yrði alltaf erfitt. Mér fannst við fara illa með síðustu tvo leiki, Álftanes og Hött, þar liggur það hjá okkur, ég hefði viljað sjá sigur í þeim leikjum en það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að við komum og vinnum Grindavík á þeirra heimavelli. Það er sárt að hafa ekki unnið síðustu tvo leiki.“ Nú er ljóst að Haukar unnu Hamar í Hveragerði og komu sér fjórum stigum ofar en Breiðablik í fallbaráttunni. Leiknum var enn ólokið þegar Ívar var spurður út í Haukana. „Ef þeir vinna Hamar þá er þetta eiginlega búið hjá okkur. Við nýttum ekki tækifæri meðan við áttum möguleika á því. Sigur hjá Haukum gerir þetta mjög erfitt en við erum ekkert að fara að gefast upp. Við eigum fullt af leikjum eftir, ef við lærum af þessum fyrri hálfleik, nýtum það og spilum eins og við gerðum þar þá getum við alveg náð í sigra“ sagði Ívar að lokum. Jóhann Þór Ólafsson: Svolítið stíft og lágstemmt en við kreistum út flotta frammistöðu Jóhann Þór hefur stýrt Grindvíkingum til sigurs í síðustu fimm deildarleikjum. Vísir/Vilhelm „Sáttur við tvö stig, svosem ekkert stórkostleg frammistaða en hún var nóg. Erfitt tap á sunnudaginn í bikar þannig að ég er nokkuð sáttur með hvernig við komum til leiks og kreistum út þessi tvö stig“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, strax að leik loknum. Grindavík byrjaði leikinn aðeins á afturfótunum og lentu á einum tímapunkti tíu stigum undir. Jóhann sagði liðið hafa hrist sig saman og hækkað orkustigið í eigin leik, sem skilaði árangri. „Við skrúfum bara upp orkuna og, eins og ég sagði, kreistum út flotta frammistöðu í seinni hálfleik. Þetta bar svolítið þess merki að þetta væri svolítið stíft og lágstemmt einhvern veginn.“ Jóhann sagði körfuboltann halda í sér lífinu á þessum erfiðu tímum. Hann nýtti tækifærið, líkt og formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur gerði í hálfleik, og kom þakkaróskum til Breiðabliks á framfæri. „Risastórt takk til allra Blika. Þetta er ekkert sjálfgefið og ég get ekki komið því í orð [hversu mikið við eigum þeim að þakka]. Þetta er bara stórkostlegt, körfuboltinn heldur í manni lífinu þessa dagana og ef það væri ekki fyrir Breiðablik væri hann ekki. Endalaust þakklæti.“ Því næst var Jóhann spurður út í Julio De Asisse, sem kom til liðsins í desember. Hann var leikmaður Breiðabliks á síðasta tímabili. „Bara nokkuð vel [inn í liðið], gefur okkur auka breidd. Varnarlega gerir hann vel í að verja hringinn og öll þessi litlu atriði. So far, so good.“ Grindavík á erfiðari andstæðing framundan í næstu umferð þegar liðið heimsækir Njarðvík. „Risa verkefni. Njarðvík eru með hörkugott lið og hafa verið að spila vel í vetur. Hafa líka verið að bæta við sig. Stórleikur en vonandi höldum við bara áfram okkar sigurgöngu í deild. Við mætum bara fullir sjálfstraust í þann leik og ætlum okkur tvö stig“ sagði Jóhann að lokum. Subway-deild karla Breiðablik UMF Grindavík
Breiðablik tók á móti Grindavík á sameiginlegum heimavelli liðanna tveggja í Smáranum. Eftir jafnan leik framan af tók Grindavík fram úr snemma í seinni hálfleik og Breiðablik átti ekki afturkvæmt, lokatölur 84-106 Grindavíkursigur. Sterk byrjun Blika Eins og svo oft áður á tímabilinu byrjaði Breiðablik leikinn vel, hittu úr stórum skotum og spiluðu fínan varnarleik gegn Grindvíkingum. Blikarnir náðu mest upp tíu stiga forystu í fyrri hálfleik en gekk illa að halda henni. Þeir gáfu boltann frá sér þrjár sóknir í röð og fljótlega var Grindavík búið að minnka muninn verulega. Furðulegt skotval og skrítnar ákvarðanir leikmanna Breiðabliks gerði Grindavík kleift að jafna leikinn og komast svo einu stigi yfir rétt áður en fyrri hálfleikur rann sitt skeið. Jöfnunarkarfan kom eftir mikinn barning Julio De Asisse í vítateig Breiðabliks og Arnór Helgason kom Grindvíkingum svo yfir með troðslu eftir ‘alley-oop’ sendingu frá Dedrick Basile. Þakkarorð í hálfleik Formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur nýtti hálfleikinn til að koma þökkum á framfæri til Breiðabliks fyrir góðvild sína og gestrisni í þeirra garð eftir áföllin sem hafa dunið yfir Grindavík undanfarna mánuði. Meistaraflokkur karla og kvenna í körfubolta í Grindavík hafa æft og spilað í Smáranum síðan í nóvember. Leikmenn Grindavíkur sýndu Breiðablik hins vegar enga hugulsemi þegar út í seinni hálfleikinn var komið. Þeir stálu boltanum í tvígang af Blikum sem brutu klaufalega af sér hinum megin á vellinum. Fljótlega náði Grindavík upp góðri forystu sem Blikar áttu erfitt með að minnka. Spennulítið undir lokin Það gerði svo algjörlega útslagið þegar Keith Jordan, helsta sóknarvopn Breiðabliks, kom sér í villuvandræði og var sendur velli um miðjan fjórða leikhluta. Fljótlega eftir það tóku bæði lið byrjunarliðsmenn af velli og létu rusltímann líða. 22 stiga sigur Grindavíkur varð það að endingu og þeir hafa nú unnið fimm leiki í röð í Subway deildinni. Ívar Ásgrímsson: Ódýrt og ungt lið sem ekki er hægt að ætlast til að vinni Grindavík á þeirra heimavelli Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks. Vísir/Anton Brink „Mér fannst við spila vel svona 80% af leiknum. Fór heilmikil orka í fyrri hálfleikinn, vorum að keyra hratt. Zoran og Snorri voru orðnir þreyttir undir lokin, svo lendum við í að fá þrjár varla snertingsvillur á Keith. Þá fjaraði svolítið undan þessu hjá okkur þegar við missum hann útaf. Erfitt að missa hann útaf í svona leik en þeir eru bara með gott lið og við réðum illa við þá“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, strax að leik loknum. Það var augljóst á meðan leik stóð að Ívar og aðrir Blikar væru alls ekki sáttir við dómgæsluna í kvöld. Keith Jordan lenti í villuvandræðum í byrjun þriðja leikhluta og var svo rekinn af velli í fjórða leikhluta. „Við erum mjög ósáttir við hvernig villur við fáum á okkur miðað við hvernig villur þeir fá á sig. Mér fannst ekkert samræmi í því og það bitnaði aðeins á okkur. Misstum Keith útaf og þá vantaði meiri sóknarógn. Heilt yfir, fram að fjórða leikhluta, vorum við að spila nokkuð vel og við getum byggt á því. Margir sem leggja í púkkið og leggja sig fram og við sýndum í fyrri hálfleik að við getum spilað helvíti góðan körfubolta.“ Ívar taldi liðið hafa staðið sig vel í kvöld en sagði ekki hægt að búast við því að sækja sigur gegn Grindavík á „þeirra heimavelli“. Hann sagðist svekktur að hafa ekki sótt úrslit úr síðustu tveimur leikjum. „Við vissum að þetta yrði erfitt strax frá byrjun, erum með bæði ódýrt og ungt lið. Við erum að keppa við lið núna sem ætlaði sér að verða Íslandsmeistari. Við vissum að það yrði alltaf erfitt. Mér fannst við fara illa með síðustu tvo leiki, Álftanes og Hött, þar liggur það hjá okkur, ég hefði viljað sjá sigur í þeim leikjum en það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að við komum og vinnum Grindavík á þeirra heimavelli. Það er sárt að hafa ekki unnið síðustu tvo leiki.“ Nú er ljóst að Haukar unnu Hamar í Hveragerði og komu sér fjórum stigum ofar en Breiðablik í fallbaráttunni. Leiknum var enn ólokið þegar Ívar var spurður út í Haukana. „Ef þeir vinna Hamar þá er þetta eiginlega búið hjá okkur. Við nýttum ekki tækifæri meðan við áttum möguleika á því. Sigur hjá Haukum gerir þetta mjög erfitt en við erum ekkert að fara að gefast upp. Við eigum fullt af leikjum eftir, ef við lærum af þessum fyrri hálfleik, nýtum það og spilum eins og við gerðum þar þá getum við alveg náð í sigra“ sagði Ívar að lokum. Jóhann Þór Ólafsson: Svolítið stíft og lágstemmt en við kreistum út flotta frammistöðu Jóhann Þór hefur stýrt Grindvíkingum til sigurs í síðustu fimm deildarleikjum. Vísir/Vilhelm „Sáttur við tvö stig, svosem ekkert stórkostleg frammistaða en hún var nóg. Erfitt tap á sunnudaginn í bikar þannig að ég er nokkuð sáttur með hvernig við komum til leiks og kreistum út þessi tvö stig“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, strax að leik loknum. Grindavík byrjaði leikinn aðeins á afturfótunum og lentu á einum tímapunkti tíu stigum undir. Jóhann sagði liðið hafa hrist sig saman og hækkað orkustigið í eigin leik, sem skilaði árangri. „Við skrúfum bara upp orkuna og, eins og ég sagði, kreistum út flotta frammistöðu í seinni hálfleik. Þetta bar svolítið þess merki að þetta væri svolítið stíft og lágstemmt einhvern veginn.“ Jóhann sagði körfuboltann halda í sér lífinu á þessum erfiðu tímum. Hann nýtti tækifærið, líkt og formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur gerði í hálfleik, og kom þakkaróskum til Breiðabliks á framfæri. „Risastórt takk til allra Blika. Þetta er ekkert sjálfgefið og ég get ekki komið því í orð [hversu mikið við eigum þeim að þakka]. Þetta er bara stórkostlegt, körfuboltinn heldur í manni lífinu þessa dagana og ef það væri ekki fyrir Breiðablik væri hann ekki. Endalaust þakklæti.“ Því næst var Jóhann spurður út í Julio De Asisse, sem kom til liðsins í desember. Hann var leikmaður Breiðabliks á síðasta tímabili. „Bara nokkuð vel [inn í liðið], gefur okkur auka breidd. Varnarlega gerir hann vel í að verja hringinn og öll þessi litlu atriði. So far, so good.“ Grindavík á erfiðari andstæðing framundan í næstu umferð þegar liðið heimsækir Njarðvík. „Risa verkefni. Njarðvík eru með hörkugott lið og hafa verið að spila vel í vetur. Hafa líka verið að bæta við sig. Stórleikur en vonandi höldum við bara áfram okkar sigurgöngu í deild. Við mætum bara fullir sjálfstraust í þann leik og ætlum okkur tvö stig“ sagði Jóhann að lokum.
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum