Innlent

Búast við svipaðri kviku­söfnun og fyrir síðasta gos í lok mánaðar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá eldgosinu sem hófst þann 8. febrúar síðastliðinn.
Frá eldgosinu sem hófst þann 8. febrúar síðastliðinn. Vísir/Björn Steinbekk

Landris á Svartsengissvæðinu heldur áfram og kvika heldur áfram að safnast þar undir. Hraði landrissins er svipaður og því sem gerst hefur fyrir síðustu eldgos á svæðinu og búist er við því að kvika nái svipaðri stöðu og fyrir síðasta eldgos í lok febrúar eða í byrjun mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. 

„Líkanreikningar byggðar á GPS gögnum frá goslokum 9. febrúar sýna að kvikusöfnun þar til í gær 14. febrúar sé um 2-3 milljón rúmmetrar. Áætlað var að þegar eldgos hófst 8. febrúar hafi um 10 milljón rúmmetrar hlaupið undan Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða mun magn kviku ná 10 milljón rúmmetrar í lok febrúar eða byrjun mars,“ segir í tilkynningunni. 

Þegar kvikumagnið er komið á það stig má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og eldgosi aukist verulega. 

Væg skjálftavirkni

Skjálftavirkni norðan Grindavíkur er áfram væg, allir skjálftar frá því á mánudag undir eða um einn að stærð. 

„Skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli heldur áfram en þar hafa um 80 smáskjálftar, um eða undir 1,5 að stærð mælst síðan 12. febrúar. Dýpi skjálftanna undir vestanverðu Fagradalsfjalli er stöðugt um 6-8 km dýpi. Áfram verður fylgst náið með þessu svæði en að svo stöddu sýna aflögunarmælingar ekki vísbendingar um kvikusöfnun,“ segir í tilkynningunni. 

Uppfært hættumat

Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út og gildir næstu vikuna að öllu óbreyttu. Líkur á gosopnun hefur lækkað á öllum svæðum kortsins en líkur á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum innan Grindavíkur eru enn taldar miklar. 

Nýja hættumatskortið sem gildir frá deginum í dag til fimmtudagsins 22. febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×