Erlent

Á­kvörðun um að banna aug­lýsingu dregin til baka eftir mót­mæli

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðunin um að banna auglýsinguna var afturkölluð ekki síst vegna mótmæla frá fyrirsætunni sjálfri.
Ákvörðunin um að banna auglýsinguna var afturkölluð ekki síst vegna mótmæla frá fyrirsætunni sjálfri.

Advertising Standards Authority, sem hefur eftirlit með auglýsingum á Bretlandseyjum, hefur afturkallað ákvörðun sína um að banna auglýsingu Calvin Klein, sem sýnir listamanninn FKA twigs hálfbera.

Auglýsingin sýnir FKA twigs í skyrtu frá Calvin Klein en skyrtan er fráhneppt og sýnir bera síðu tónlistarkonunnar og annað brjóstið að hluta. Kvartað var yfir auglýsingunni og ASA komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að á myndinni væri FKA twigs hlutgerð á kynferðislegan hátt.

Ákvörðunin um að draga bannið til baka var hins vegar tekin í kjölfar mikilla mótmæla og þá ekki síst á grundvelli yfirlýsingar FKA twigs, sem hóf feril sinn sem dansari.

Listakonan mótmælti niðurstöðu ASA og sagði myndina þvert á móti sýna „sterka, fallega, litaða konu“. Hún kannaðist ekki við það hlutverk sem stofnunin hefði ætlað henni. 

FKA twigs sagði líkama sinn hafa þolað meiri sársauka en menn gætu ímyndað sér og hún væri stolt af líkama sínum og þeirri list sem hún skapaði með honum.

Þá sagði listakonan ákvörðun ASA til marks um tvöfalt siðferði en aðrar áþekkar auglýsingar hefðu fengið að standa, til dæmis myndir af leikaranum Jeremy Allen White, sem kemur fyrir í nýjustu undirfataherferð Calvin Klein.

Herferðin sýnir White í ýmsum stellingum á nærfötunum einum fata og hefur vakið mikla athygli en jákvæða. Þá hefur ekki verið kvartað undan auglýsingum Calvin Klein þar sem fyrirsætan Kendall Jenner kemur fyrir á nærfötunum.

Þess má geta að ASA bannaði auglýsinguna með FKA twigs eftir að tvær kvartanir bárust en hefur ekki tekið auglýsingarnar með White til skoðunar þrátt fyrir að fleiri kvartanir hafi borist vegna þeirra; þrjár samtals.

Talsmaður ASA hefur sagt að ákvörðunin um að draga bannið til baka hafi verið tekin eftir að afstaða FKA twigs lá fyrir og eftir að áhyggjur vöknuðu af því að rökin á bakvið ákvörðunina hefðu ekki verið nægilega ígrunduð.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×